Fréttir

You Are In Control, ráðstefna

22 okt. 2013

Alþjóðlega ráðstefnan You Are In Control verður haldin í Reykjavík í sjötta sinn dagana 28. – 30. október 2013 í Bíó Paradís.  Sem fyrr mætast á ráðstefnunni skapandi greinar, hönnun, tónlist, bókmenntir, tölvutækni, kvikmyndagerð og myndlist. Sætafjöldi er takmarkaður en dagskráin er hefur aldrei verið flottari, svo það er um að gera að tryggja sér ráðstefnupassa í tíma!

Fyrirlesarar

Breiður hópur fagfólks heldur fyrirlestra og vinnusmiðjur en á meðal þeirra sem ættu að höfða sérstaklega til hönnuða og arkitekta eru:

Teemu Suviala, grafískur hönnuður og stofnandi eins fremsta hönnunarfyrirtækis í Finnlandi, Kokoromoi. Fyrirtækið starfrækir stofur í Helsinki, Amsterdam og í New York. Á meðal viðskiptavina þeirra eru City of Helsinki, AIA NY, Helsinki Design Week, World Design Capital Helsinki og Print Magazine.

Timo Santala, stofnandi hins alþjóðlega Restaurant Day og platformsins We Love Helsinki sem skipuleggur fjölbreytta viðburði sem hafa það að markmiði að lífvæða og hressa almenningsrými í Helsinki. Restaurant Day er haldinn 4 sinnum á ári og þá getur hver sem vill opnað veitingastað í einn dag og auglýst hann í gegnum Restaurant Day vefsamfélagið.

Oliver Luckett, er einn lykilfyrirlesara ráðstefnunnar. Hann rekur fyrirtækið theAudience sem stýrir efni á samfélagsmiðlum fyrir rúmlega 300 einstaklinga og fyrirtæki, sem samtals eiga um 800 milljón aðdáendur á samfélagsmiðlum. Áður stofnaði hann fyrirtækið DigiSynd sem gerði m.a. nýja samfélegasmiðlastefnu fyrir Walt Disney og var í kjölfarið selt í heild sinni til Disney. Oliver gefur okkur innsýn inn í velgengni hans á nýtingu internetsins til þess að virkja aðdáendur og auka viðveru á veraldarvefnum.

Kristin María, hönnuður hefur verið að ryðja sér til rúms að undanförnu í matar-og upplifurnarhönnun. Gestir ráðstefnunnar fá að njóta hádegismatar ala Kristín María og taka þátt í gagnvirkri matarupplifun með símunum sínum.

Ingi Rafn Sigurðsson stofnandi Karolina fund, fyrsta og eina hópfjármögnunarsíðan sem stofnuð hefur verið hér á landi. Á síðunni gefst fólki færi á að fjármagna og kynna verkefni sín áður en þau fara í framleiðslu. Fjöldi tónlistamanna hefur nýtt sér Karolina fund en einnig mætti nefna verkefni eins og Hearth kertastjakana eftir Ragheiði Ösp og sirkústjaldi fyrir Sirkús Ísland sem hafa náð fjármögnun á síðunni.

Á mánudeginum 28. október, kl. 18-20 verður opnunarhófið en ráðstefnan fer fram dagana 29. og 30. október kl. 9-19. Nánari upplýsingar um fyrirlesara ráðstefnunnar má finna á youareincontrol.is/program/speakers-2013

Ráðstefnupassi

Ákveðið var lækka verðið á ráðstefnuna verulega í ár til að gera hana viðráðanlega einstaklingum og minni fyrirtækjum enda höfðar innihald hennar sérstaklega til þess hóps. Ráðstefnupassar kosta 15.000 kr.  en þeir hafa á undanförnum árum kostað 30.000 kr. (raunkostnaður er mun hærri). Innifalið er boð á opnunarkvöldið, vinnustofur og hádegismatur á ráðstefnudögum.

Einungis eru um 100 ráðstefnumiðar eftir og nú fara kynningarmiðstöðvarnar 6 sem standa að baki ráðstefnuna að fara á fullt að selja sínu fólki miða. Hönnunarmiðstöðin hvetur alla áhugasama hönnuði og arkitekta að tryggja sér sæti á youareincontrol.is/register-now

Ráðstefnan You Are In Control er unnin í samstarfi við Íslandsstofu, Útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar, Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar, Kvikmyndamiðstöð, Samtök íslenskra leikjaframleiðanda, Kynningarmiðstöð íslenskra bókmennta, Leiklistasamband Íslands og Íslensku tónverkamiðstöðina.

Til baka

Póstlisti