Miðdalur

middalur

 

Yfirlitsmynd af Miðdal

Mats Wibe Lund sendi okkur þessa stórgóðu mynd af Miðdal. Fyrir þá sem vilja panta útprentaða mynd er bent á að tala beint við Mats. Netfangið hans er mats@mats.is.

Gönguleiðir í Miðdal

Í Miðdal eru margar góðar gönguleiðir, sú sem er vinsælust og mest farin er með Skillandsárgljúfri upp á dal. Best er að hefja þá göngu fyrir ofan orlofshús númer fjögur en þaðan er góður göngustígur upp með gljúfrinu sem Skillandsá fellur í. Þaðan er síðan létt ganga inn dalinn að mótum Mjóadals. Þar er gömul rétt sem er góður áningastaður. Önnur leið en minna farin er ganga að Prestvatni. (Vatnsheiðarvatn) Þá göngu er ágætt að byrja með því að fara vegaslóða upp á Miðdalsfjall og sveigja síðan til hægri í átt að Efstadalsfjalli fara síðan í gegn um Vatnsheiðarskarð niður að Prestvatni. Einnig er létt ganga úr skarðinu til austurs upp á Efstadalsfjall en þaðan er frábært útsýni. Ganga á Efstadalsfjall er um það bil fjórir tímar. Góða ferð.
Miðdalur í Laugardal – skipulag
GRAFÍA hefur nú undir höndum skipulag þar sem ýmsum upplýsingum hefur verið safnað saman, upplýsingum sem áður voru á hendi margra aðila og ekki til á teikningum. Með vinnu þessari eru einnig festar í sessi ákvarðanir sem GRAFÍA og félag sumarhúsaeigenda hafa verið að taka á undanförnum árum. Mikilvægast verður þó að telja að grunn þennan má nota við stýringu og ákvarðanatökur í náinni framtíð. Í grein þessari eru dregin fram nokkur atriði úr greinargerðinni, en henni er skipt í 7 aðalflokka og fjölda undirflokka.

1. Forsendur skipulags og stefnumörkun

Eftirtaldir undirflokkar fylgja málaflokki þessum:
Stefna í skipulags- og byggingarmálum. Spá um fjölgun sumarbústaðabygginga. Stefna í umhverfismálum. Stefna í samgöngumálum. Örnefni og nafngiftir.

Stefna í umhverfismálum
Áhersla er lögð á tengingu útivistarsvæða svo að þau þjóni íbúum sem best. Lögð er áhersla á að vernda sérstæð náttúrufyrirbæri og menningarminjar. Upplýsingum um náttúru og umhverfi á að koma til sem flestra með því að útbúa göngukort, upplýsingaskilti og bæklinga fyrir þá sem dvelja á svæðinu. Stuðla á að almennri trjárækt sem taki mið af því gróðurfari sem fyrir er. Stefna skal að uppbyggingu sameiginlegra svæða svo sem tjald- og leiksvæða. Taka skal saman tæknilegar upplýsingar er varða svæðið, s.s. vatn, rafmagn o.fl.

2. Staðhættir og náttúrufar

Eftirtaldir undirflokkar fylgja málaflokki þessum:
Stutt ágrip af sögu jarðarinnar Miðdals. Landslag og náttúrufar.

3. Opin svæði til sérstakra nota

Eftirtaldir undirflokkar fylgja málaflokki þessum:
Almenn lýsing á skipulagi opinna svæða. Tjaldsvæði. Skipulag og trjárækt á tjaldsvæði. Bolta- og íþróttaleikvellir. Tjaldstæði. Leiksvæði. Bílastæði. Bað- og þjónustuhús. Leiksvæði hverfanna. Golfvöllur. Varðeldur.

Almenn lýsing á skipulagi opinna svæða
Með skipulagi opinna svæða er leitast við að sameina land- og náttúrufræðilega sérstöðu þessa orlofs- og sumarhúsasvæðis. Er þetta gert í tengslum við þróun byggðar, framtíðar landnotkun og uppbyggingu á tjaldsvæði. Sjónum er beint að landslagi og gróðurfari, lögð áhersla á að draga fram og kortleggja fornar mannvistarleifar og náttúruminjar. Stefnt er að því að gera Sakkarhólma og Ljósárnar að verndarlandi GRAFÍU og kynna þar gróðurfar og ýmis sérkenni lands. Áhersla er lögð á að skapa gangandi vegfarendum greiðfærar leiðir um áhugavert landslag og stuðla að ræktun hentugra trjáplantna á réttum stöðum. Á sumum stöðum er hvatt til ræktunar trjáa eins og á svæðinu milli Mið- og Neðrahverfis, en á öðrum stöðum er lagst gegn gróðursetningu trjáa, til dæmis í víðlendum birkikjarrbreiðum og í Sakkarhólma. Settar eru fram hugmyndir sem miða að því að nýta ýmsa möguleika svæðisins til aukinnar útivistar, um gerð leiksvæða og mótun á vistlegu umhverfi við tjaldsvæði.

Golfvöllur
Unnið er að uppbyggingu golfvallar á túnum Miðdals og miðar þeirri vinnu vel. Golfvöllur þessi er skipulagður af Hannesi Þorsteinssyni og hefur hann verið leigður Golfklúbbnum Dalbúum. Lagt er til að gerður verði göngustígur sunnan við Neðrahverfi, á brú yfir Ljósár og þaðan áfram að golfvelli.

Tjaldsvæði – Skipulag og trjárækt á tjaldsvæði
Lagt er til að tjaldsvæði verði skipulega byggt upp með hentugum trjáplöntum. Til dæmis ber að nota víði og ösp á blautustu svæðum og varast að nota barrvið þar sem landhalli er lítill og mikill raki í jörðu. Lagt er til að umferðarleiðir verði bættar á tjaldsvæði. Þannig mun svæðið betur þjóna þeim er þar gista. Tjaldsvæðinu er ætlað að þjóna óskum ólíkra hópa og mætti skipta því sem hér segir:

Bolta- og íþróttaleikvellir
Bolta- og íþróttasvæði eru tvö. Annað er á núverandi olíumalarklæddu plani, plani sem er vel undirbyggt en með lélegu yfirborðsefni. Völlurinn hentar því illa til þeirra nota sem hann var gerður fyrir, þ.e. tennis, badminton og boltaíþróttir. Lagt er til að
planið verði malbikað í náinni framtíð og mun það stórbæta alla aðstöðu til íþróttaiðkana. Bætt aðstaða mun trúlega leiða til þess að aðsókn eykst að svæðinu. Annað íþróttasvæði verður í norðausturhorni tjaldsvæðis á stað þar sem gras- og boltavöllur er fyrir hendi. Á nokkrum árum má bæta völlinn með því að jafna hann og slétta og einnig þarf að setja upp betri og öruggari mörk sem ekki geta oltið. Auk þess þarf að merkja völlinn með línum.

Tjaldstæði
Lagt er til að tjaldsvæði það sem er næst þjónustuhúsi og austur af leiksvæði verði notað fyrir fjölskyldufólk. Þegar hefur verið hafist handa við að auka trjágróður á þessu svæði og eru notaðar víði- og asparplöntur sem henta landsvæðinu.
Lagt er til að hópar og starfsmannafélög gisti syðst á tjaldsvæðinu og að útbúið verði
samkomusvæði með grillaðstöðu þar sem reisa mætti stórt tjald og annað sem ætla má að komi að notum við hátíðahöld fjölmennra hópa. Þegar er búið að útbúa aðstöðu fyrir húsbíla og húsvagna suðaustur af Neðrahverfi. Þar mætti gróðursetja meira af plöntum, útbúa einfalda hreinlætisaðstöðu og leggja rafmagn fyrir húsbíla.

Leiksvæði
Leiksvæði er á miðju tjaldsvæði og þar má halda áfram uppbyggingu ýmissa leiktækja. Leiktæki þessi mættu gjarnan vera dálítið „hrᓠeða búin til sem hluti af umhverfinu. Til dæmis má nota ýmsan þann efnivið sem til fellur við grisjun úr hverfum en þar eru víða stór tré sem þurfa brátt að víkja. Í utanverðar grasmanir í kringum leiksvæðið hafa þegar verið gróðursett aspartré en þeirri vinnu er þó ekki lokið að fullu þar sem víðir á einnig eftir að koma. Útsýnishóll helst óbreyttur en falli til jarðvegur á svæðinu má gjarnan nota hann til að stækka hólinn. Á svæðinu skal koma fyrir minigolfi sem félagið hefur fengið. Um er að ræða 9 brautir og koma þær rétt utan við aðalleiksvæðið.

Bílastæði
Tvö meginbílastæði verða á tjaldsvæðinu. Eitt lítið verði við aðkomu þjónustuhúss þar sem núverandi innkeyrsla er að húsinu. Ný innkeyrsla verði gerð sunnar og opnaður möguleiki á hringakstri á milli beggja innkeyrslna. Auðveldar þetta akstur um svæðið. Annað bílastæði verði við tjaldsvæðið og keyrt að því frá núverandi aðkomu. Frá bílastæði þessu má gera akfæran göngustíg að syðsta hluta svæðisins þar sem hópar og starfsmannafélög gista. Þennan stíg má nota þegar tjöldum og viðlegubúnaði er komið fyrir á tjaldstæði en bílum er ætlað að standa á bílastæði.

Bað- og þjónustuhús
Í kringum bað- og þjónustuhús þarf að gróðursetja fleiri plöntur og gera umhverfið gróskumeira. Þar þarf að koma fyrir upplýsingum sem lýsa heildarsvæðinu, helstu gönguleiðum og umgengnisreglum um svæðið.

4. Vernduð svæði

Eftirtaldir undirflokkar fylgja málaflokki þessum:
Helstu menningarminjar og náttúruminjar. Litlistekkur. Kúalaut. Þorleifstóft.
Og þar vex kúmen. Uppi á Vörðunni. Sakkarhólmi. Sakkarfoss. Ljósár. Birkikjarrlendi. Vatnsvernd. Dýrahald.

Sakkarhólmi
er ægifagur hólmi í Skillandsá. Hlaup nefnist þröngt og djúpt gljúfur sem skilur að hólmann mót vestri. Hlaup eru hrikaleg á að líta og ætti fólk að varast að fara fram á brún þeirra. Sakkarhólmi er að mörgu leyti einstæð náttúruperla. Á árhólma sem er tæpur hektari að stærð má finna óvenju margar tegundir plantna. Á ekki stærra landsvæði vaxa t.d. mýrarstör, hrossanál, hárdepla, mjaðjurt, krækiberjalyng, holtasóley, krossmaðra, bláberjalyng, beitilyng, sortulyng, aðalbláberjalyng, hvönn, blágresi og íslenskur einir í stórum breiðum. Gera má ráð fyrir að staður þessi hafi verið varinn ágangi dýra frá ómunatíð sökum sérstæðrar legu sinnar. Vegna þess hve staðurinn er óspjallaður þyrfti að fjarlægja þær alaskaaspir og greni sem gróðursett hafa verið úti í hólmanum. Lagt er til að göngustígur verði lagður um hólmann og hann brúaður léttum færanlegum brúm á tveimur stöðum. Annars vegar fyrir neðan Sakkarfoss eða við svokallaða Sökk þar sem þegar er búið að smíða litla brú. Hins vegar að lagður verði brúarpallur yfir lækinn við syðsta odda hólmans. Stígur verði síðan lagður norður og upp með ánni og upp með Sakkarfossi að sunnanverðu. Brúarpallar þessir verði síðan fjarlægðir yfir vetrartímann. Svæðið er hættulegt yfirferðar og lagt er til að sérstakar ráðstafanir verði gerðar varðandi gönguleiðir, merkingar o.fl. Varhugaverðustu staðirnir eru norðan við Sakkarfoss þar sem gengið er niður að hólmanum og við gljúfrin Hlaup eins og áður sagði. Lagt er til að Sakkarhólmi hljóti sérstaka verndun hjá GRAFÍU stéttarfélagi og að hólminn verði einskonar „verndarland“ GRAFÍU þar sem fólki gefst tækifæri til að skoða einstakt náttúrufar.

Sakkarfoss
Hann er stundum nefndur Fingrafoss og er fagurlega freyðandi foss sem fellur í Skillandsá við hylinn Sökk. Foss þennan ber að vernda. Nokkuð vandasamt er að komast niður að fossinum og hefur verið reynt að leggja hellur í eins konar þrep. Þrep þessi hafa skriðið fram og kemur helst til greina að höggva göngustíg í sjálft móbergið og er það mun smekklegri lausn en að smíða timburþrep þangað niður. Sýna þarf sérstaka aðgæslu og varúð á þessum stað.

Ljósár
Lindár sem eiga upptök sín í móberginu skammt ofan og austan við sumarbústaðahverfin nefnast Ljósár. Lindárnar spretta undan móhellunni og hefur vatnið sigið ofan í lek jarðlög þar sem holrýmd og lekt bergsins ná að jafna rennsli vatnsins. Ljósárnar eru því mjög stöðugar og jafnar í rennsli allan ársins hring. Séð úr fjarska mynda árnar sérstæða hvítfyssandi tauma í fjallið og vekja þær sérstaka eftirtekt þeirra sem leið eiga um landið. Lagt er til að Ljósárnar og
gróðurtungurnar á milli þeirra hljóti sérstaka verndun hjá GRAFÍU og að svæði þetta verði einskonar verndarland GRAFÍU og þar verði hvorki byggt né landi raskað vegna einstakrar náttúrufegurðar.

5. Þjónustukerfi

Eftirtaldir undirflokkar fylgja málaflokki þessum:
Fráveita. Rafveita. Vatnsveita. Gönguleiðir. Aðalstígar. Göngu-slóðar. Skíðagönguleiðir. Siglingaleiðir. Sorpmál. Upplýsingaskilti og merkingar á útsýnisstöðum.

Gönguleiðir
Aðalstígar eru merktir sérstökum lit á korti og með sama lit á vegstikum í landi. Stígarnir skulu vera minnst 1,5 m breiðir og þægilegir göngu. Ekki skulu höfð jarðvegsskipti í þeim en víða þarf að fylla í lægðir og fjarlægja steina. Sérstakar ráðstafanir þarf að gera þar sem þeir liggja yfir brattlendi, grjótlendi, votlendi, læki eða kjarrlendi. Hringstígurinn (gulur litur), liggur frá tjaldsvæði, þaðan upp með Skillandsá og upp í Breiðhöfða. Þaðan liggur hann norðan við byggð aftur niður og austan við Efrahverfi og niður með Ljósám austan við Mið- og Neðrahverfi. Tveir aðrir aðalstígar (rauður og grænn litur) liggja um landið og tengja saman aðrar leiðir. Jafnframt kemur nýr aðalstígur (bleikur litur), er leiðir til golfvallar. Stór hluti þessara stíga er þegar kominn en eftir er þó að gera stíg um Breiðhöfða og ofan við Efrahverfi og stíg frá tjaldsvæði að golfvelli. Gönguslóðar Þeir eru merktir gráum lit og er stór hluti þessara slóða nú þegar lagður. Þeir skulu vera minnst 0,6 m breiðir og nokkuð góðir yfirferðar. Á þeim má þó finna steinnibbur og víða mega þeir vera allbrattir. Í kjarrlendi skal grisja greinar frá slóðum og víða þarf að slétta land, setja upp þrep eða litla brúarpalla. Flestir þeirra gönguslóða sem þegar eru komnir liggja þvert og endilangt um gil Nýgræðulækjar. Eftir því sem byggð eflist í Miðhverfi má búast við að slóðum upp gilið eigi eftir að fjölga. Gert er ráð fyrir nýjum gönguslóða að Þorleifstóft. Að Sakkarhólma verður lagður sérstakur stígur (ljósblár litur). Eftir er að leggja slóða upp Sprænurnar og inn Skillandsdal (appelsínugulur litur).

6. Uppgræðsla og hreinsun á landi

Eftirtaldir undirflokkar fylgja málaflokki þessum:
Efnis- og malarnámur. Uppgræðsla á melum og rofabörðum. Hreinsun á landi. Í sjöunda kaflanum er fjallað um skipulagsvinnu þá er unnin hefur verið. Í greinargerð þessari kemur fram að tímabært var að gera heildarskipulag orlofssvæðis GRAFÍU. Markviss og skipuleg vinna mun í framtíðinni búa til enn betri aðstöðu fyrir félagsmenn á orlofssvæði GRAFÍU í Miðdal en nú er, enda hefur aðsókn að tjaldsvæði aukist undanfarin ár með bættri aðstöðu.

Til baka

Póstlisti