Fréttir

Virðisaukaskattur á bækur og tímarit

6 feb. 2013

FRÉTTATILKYNNING
Vegna umfjöllunar í Morgunblaðinu um virðisaukaskatt á bækur sunnudaginn 3. febrúar sl. vilja Félag bókagerðarmanna (FBM) og Samtök iðnaðarins (SI) koma eftirfarandi á framfæri:
 
FBM og SI styðja málarekstur Prentsmiðjunnar Odda eða móðurfélags þess, Kvos, gegn íslenska ríkinu, þar sem reynt er að fá því hnekkt að lagður sé á 25,5% virðisaukaskattur á bækur sem prentaðar eru hér á landi og ætlaðar eru til endursölu, þá fyrst og fremst fyrir bókaútgefendur.
 
Ef erlendar prentsmiðjur prenta bækur eða tímarit fyrir íslenskan bókaútgefanda þá er einungis lagður á 7% virðisaukaskattur við tollafgreiðslu á meðan íslenskum prentsmiðjum er gert að leggja á 25,5% af fullkláruðum bókum eða tímaritum.
 
Hjá þeim viðskiptavinum íslensku prentsmiðjanna sem eru virðisaukaskattsaðilar og geta fengið virðisaukaskattinn endurgreiddan þýðir þetta meiri fjárbindingu. En fyrir þá viðskiptavini sem eru ekki virðisaukaskattsaðilar, svo sem fjármálastofnanir og ýmis opinber fyrirtæki, þýðir þetta einfaldlega hærra verð sem nemur muninum á virðisaukaskattinum.
 
Ljóst er að þarna er í raun verið að tollvernda erlenda framleiðslu og þannig stuðla að því að flytja íslenskan iðnað og bókaframleiðslu úr landi.
 
 
Reykjavík, 6. febrúar 2013

Georg Páll Skúlason, formaður Félags bókagerðarmanna   

Orri Hauksson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins

Til baka

Póstlisti