Verðlaun í auglýsingasamkeppni Sameinuðu þjóðanna
13 sep. 2010
Stefán Einarsson hönnunarstjóri hjá Hvíta húsinu fékk fyrstu verðlaun í samkeppninni „Unleash your creativity against poverty“, sem Upplýsingaskrifstofa Sameinuðu þjóðanna í Brussel efndi til í Evrópu. Verðlaunin voru afhent 10. september í Madríd á Spáni. Alls bárust 2030 auglýsingar en auk þess að sigra keppnina átti Stefán auglýsingu í þriðja sæti og alls þrjár af þrjátíu sem valdar voru til að keppa til úrslita. Sigurauglýsingin nefnist: „Kæru leiðtogar, við bíðum enn“, og er þar vísað til loforða leiðtoga heims um að helminga fátækt í heiminum fyrir árið 2015.
Í þakkarræðu sinni bar Stefán Einarsson Ísland á dögum efnahagshrunsins saman við þann daglega veruleika sem blasti við stórum hluta mannkynsins í þróunarríkjunum. „Okkar kreppa er að mestu lúxuskreppa, við höfðum of mikið og höfum ennþá nóg. Við ættum að minnast þess með þakklæti á hverjum degi að við erum á meðal þeirra fáu heppnu í heiminum sem höfum aðgang að hreinu vatni, mat, læknisþjónustu, menntun, húsnæði og öryggi.“
Auglýsingin hefur og mun birtast í mörgum af helstu stórblöðum Evrópu sem voru samstarfsaðilar Sameinuðu þjóðanna. Má nefna Liberation (Frakklandi), the Guardian (Bretlandi) , Metro International (Bandaríkjunum, Danmörku, Brasílíu, Rússlandi og fl.) , Stampa (Ítalíu) og El Pais (Spáni) svo eitthvað sé nefnt.