Sýning | GÍSLI B. – FIMM ÁRATUGIR Í GRAFÍSKRI HÖNNUN
26 okt. 2012
Yfirlitssýning á verkum Gísla B. Björnssonar grafísks hönnuðar verður opnuð í kvöld í Hönnunarsafni Íslands. Gísli B. er einn atkvæðamesti grafíski hönnuðurinn í íslenskri hönnunarsögu á 20. öld. Sýningarstjóri er Ármann Agnarsson grafískur hönnuður og stundakennari við LHÍ.
Gísli stofnaði auglýsingastofu Gísla B. Björnssonar þegar hann kom úr námi frá Þýskalandi árið 1961. Ári síðar stofnaði hann sérdeild í auglýsingateiknun við Myndlista- og handíðaskólann sem í dag er braut grafískrar hönnunar í Listaháskóla Íslands. Gísli hefur kennt óslitið í fimm áratugi og verið óþreytandi í því að efla fagvitund og ábyrgð í grein sem í dag er orðin ein stærsta hönnunargreinin á Íslandi.
Á sýningunni er farið yfir feril Gísla, verk frá námsárum hans sýnd, tímarit, bókakápur og umbrot og hönnun bóka. Sýnd eru gömul myndbrot af auglýsingastofu Gísla þar sem tækni þess tíma gefur innsýn í vinnu teiknarans og hugmyndasmiðsins. Sýningin stendur til 3. mars 2013 og verður fjölbreytt fræðsludagskrá í boði í tengslum við sýninguna á meðan á henni stendur, sjá heimasíðu Hönnunarsafnsins www.honnunarsafn.is