Fréttir

Stjórn FBM mótmælir auknum álögum

17 sep. 2014

Stjórn FBM mótmælir auknum álögum á þorra launafólks sem

fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar felur í sér.

 

Breyting vsk hreyfir verðlag á matvælum

Hækkun á lægra þrepi virðisaukaskatts úr 7% í 12% kemur verst niður á tekjulægri heimilum. Breytingarnar á virðisaukaskattskerfinu, sem ríkisstjórnin leggur nú til, leggst með næstum tvöfalt meiri þunga á lægsta tekjuhópinn en þann hæsta þegar útgjöld vegna matvæla eru skoðuð. Kerfisbreytingin eykur á hættu að verðlag hækki meira en efni standa til. 

Fólk í atvinnuleit mætir skilningsleysi 

Stjórn FBM mótmælir harðlega skerðingu á bótarétti vegna atvinnuleysisbóta, sérstaklega gagnvart þeim einstaklingum sem hafa verið hvað lengst án atvinnu. Skerðing á bótarétti úr þremur árum í 2 og hálft ár er veruleg og veldur því að fjöldi fólks þarf að leita til sveitarfélaga um framfærslu sem eru þung skref. Atvinnuleysi minnkar ekki við það að velta vandanum yfir á sveitarfélögin og mikilvægara er að halda úti virkum vinnumarkaðsúrræðum. 

Þá skorar stjórn FBM á stjórnvöld að halda í heiðri það samkomulag um að koma með fjármagn inn í Virk starfsendurhæfingarsjóð eins og kveðið er á um í lögum frá árinu 2012 en ekki er gert ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu.

Stjórn Félags bókagerðarmanna, 16. september 2014.

Til baka

Póstlisti