Fréttir

Sjóðfélagafundur SL um sameiningarmál

2 sep. 2016

Sjá frétt á vef Sameinaða lífeyrissjóðsins

https://lifeyrir.is/um-sjodinn/kynningarefni/frettasafn/frett/2016/08/31/Sjodfelagafundur-um-sameiningarmal/

Á sjóðfélagafundi Sameinaða lífeyrissjóðsins, sem haldinn var á Grand hóteli í Reykjavík í gær, var fyrirhuguð sameining við Stafi lífeyrissjóð kynnt. Á sama tíma var haldinn í næsta sal sams konar fundur með sjóðfélögum í Stöfum lífeyrissjóði.  Eftir sameiningarviðræður síðustu vikna er það niðurstaða beggja stjórna að sameining Stafa og Sameinaða sé til hagsbóta. Með henni verði hægt að auka hagkvæmni í rekstri og draga úr áhættu og efla þjónustu við sjóðfélaga.

Á fundunum voru forsendur sameiningarinnar kynntar en þær byggja á tryggingafræðilegu mati á stöðu sjóðanna og áreiðanleikakönnun sem nú er lokið. Farið var yfir tillögur að samþykktum nýs sjóðs og samrunasamningi sem lagður verður fyrir aukaársfundi beggja sjóða sem haldnir verða í lok september.

Þorbjörn Guðmundsson formaður Sameinaða lífeyrissjóðsins og Ólafur Haukur Jónsson framkvæmdastjóri sjóðsins gerðu grein fyrir sameiningarvinnunni og þeirri tillögu sem nú liggur fyrir um að sameina sjóðina. Fram kom að úttektir, sem gerðar hafa verið, sýna að sjóðirnir eru að mörgu leyti mjög líkir og að ekki er mikill munur á tryggingafræðilegri stöðu þeirra. Að mati tryggingastærðfræðings þarf að gera litlar breytingar á réttindum sjóðfélaga til að eignir og skuldbindingar sameinaðs sjóðs verði jafnar. Niðurstaðan er sú að lækka þarf réttindi sjóðfélaga í Sameinaða lífeyrissjóðnum um 1,1%. Hins vegar mun aldurstengd réttindaávinnsla sjóðfélaga Sameinaða lífeyrissjóðsins hækka nokkuð í hinum nýja sjóði. Jafnframt munu sjóðfélagar, sem í dag eiga rétt til jafnrar ávinnslu hjá Sameinaða, halda þeim rétti í nýjum sjóði.

Jákvæð viðhorf voru til sameiningarinnar í umræðum í lok fundar. Frummælendur svöruðu þar ýmsum spurningum sem snéru að réttindamálum einstakra hópa og um framtíðarstarfsemi sameinaðs sjóðs. Glærur fundarins má nálgast hér. 

Aukaársfundur Sameinaða lífeyrissjóðsins verður haldinn í lok september þar sem sameiningin verður borin undir atkvæði. Allir sjóðfélagar eiga rétt á setu á fundinum.

Til baka

Póstlisti