Samkomulag um hækkun frítekjumarks á lífeyrissjóðstekjur
10 jan. 2011
Samkomulag um hækkun frítekjumarks á lífeyrissjóðstekjur
Landssamtök lífeyrissjóða og ríkisstjórnin hafa gert með sér samkomulag um að draga nú þegar úr víxlverkunum milli bóta almannatrygginga og lífeyrissjóðsgreiðsla og hækka frítekjumark á lífeyrissjóðstekjur ellilífeyrisþega gagnvart almannatryggingum í áföngum á árunum 2013-2015.
Sömuleiðis hafa þessir aðilar sammælst um að setja af stað vinnu við að finna varanlega lausn á víxlverkunum bóta almannatrygginga og lífeyrissjóða og leita leiða til að auka samstarf Tryggingastofnunnar og lífeyrissjóðanna þannig að einfalda megi og bæta þjónustu og upplýsingamiðlun til lífeyrisþega.
Alþýðusambandið hefur lagt ríka áherslu á það um langt skeið að brýnt sé að bæta samspil milli almannatryggingakerfisins og lífeyrissjóðanna í því miði að einfalda kerfið og auka gagnsæi þess. Hafa fulltrúar aðildarfélaga ASÍ í stjórnum lífeyrissjóða unnið að framgangi þessara sjónarmiða, því það er með öllu ólíðandi að samspil þessara kerfa sé með þeim hætti að stór hluti launafólks sem greitt hefur til samtryggingarlífeyrissjóðanna á stafsævi sinni skuli ekki njóta þess í raunverulega bættum hag á efri árum. ASÍ hefur einnig talið að besta leiðin til að tryggja þetta sé að hækka frítekjumörk vegna lífeyrissjóðstekna í almannatryggingakerfinu. Alþýðusambandið fagnar þess vegna þeirri viðleitni og þeim áfanga, sem felst í þessu samkomulagi lífeyrissjóðanna og stjórnvalda, en áréttar mikilvægi þess að áfram verði unnið að því að hækka frítekjumörkin vegna lífeyrissjóðstekna.