Prentsmiðjueintök – prentsaga Íslands, sýning
26 sep. 2014
Sýningaropnun á Bókasafninu í Hveragerði
Prentsmiðjueintök – prentsaga Íslands
Velkomin á sýningaropnun á Bókasafninu í Hveragerði 27. september kl. 12 á hádegi
Svanur Jóhannesson segir frá söfnuninni, sýningunni, prentgripum og prentsmiðjum.
Boðið upp á súpu og brauð.
Allir velkomnir
Liður í „Bókabæirnir austanfjalls“
Sýningin er styrkt af Menningarráði Suðurlands
Prentsmiðjueintök – prentsaga Íslands
Í tilefni af 85 ára afmæli Svans Jóhannessonar bókbindara nú í september verður opnuð sýning á prentsmiðjueintökum á Bókasafninu í Hveragerði laugardaginn 27. september kl. 12 á hádegi. Þar mun Svanur segja frá söfnun sinni, tilurð sýningarinnar og nokkrum gripum og prentsmiðjum. Boðið verður upp á súpu og brauð. Allir eru velkomnir.
Svanur Jóhannesson bókbindari hefur í mörg ár safnað bókum frá flest öllum prentsmiðjum á landinu til okkar daga. Bækurnar eru nú orðnar á annað hundrað talsins, eitt eintak frá hverri prentsmiðju, sumar mjög gamlar. Sýningin einskorðast ekki við þær bækur sem Svanur hefur safnað, heldur hefur honum tekist að fá nokkra forngripi að láni þannig að þarna verða samankomnir gripir frá flestum prentsmiðjum á Íslandi frá upphafi. Lítil prentvél og ýmislegt fleira sem tengist prentun á árum áður verður einnig til sýnis.
Svanur hóf í sumar að taka saman upplýsingar um prentsmiðjurnar og eigendur þeirra og setja smátt og smátt á samfélagsmiðilinn Facebook. Þetta vakti athygli og hann var hvattur til að halda áfram og gefa efnið út á bók. Nú er bókin komin út og verður til sýnis og sölu á safninu.
Tilgangurinn með sýningunni er að gefa fólki kost á að sjá þetta merkilega safn Svans sem gefur áhugaverða innsýn í prentsögu Íslands og fræðast um hvernig bækur voru og eru prentaðar. Þótt ekki séu alltaf sérvaldar bækur frá prentsmiðjunum má að einhverju leyti sjá hverjum breytingum prentgripir hafa tekið gegnum tíðina.
Menningarráð Suðurlands styrkir sýninguna, sem einnig fellur undir Bókabæina austanfjalls. Margir hafa aðstoðað á einn eða annan hátt við að gera sýninguna að veruleika: stofnanir, fyrirtæki og einstaklingar og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir.