Fréttir

Opið hús á Hverfisgötu 21 á Menningarnótt

21 ágú. 2014

Opið hús verður í fjórum húsum Reykjavík Residence hótels við Hverfisgötu og Veghúsastíg á Menningarnótt, laugardaginn 23. ágúst, kl. 14-17. Öll eru húsin um aldargömul; byggð árin 1910, 1912, 1914 og 1920.

Margrét Sveinbjörnsdóttir, menningarmiðlari í Brúarsmiðjunni, leiðir gesti um húsin og stiklar á helstu tímabilum í sögu þeirra, með aðstoð góðra gesta

sem þekkja húsin vel. Á Hverfisgötu 21 verður Svanur Jóhannesson bókbindari til halds og trausts, en hann vann lengi í húsinu þar sem Hið íslenska prentarafélag og seinna Félag bókagerðarmanna hafði aðsetur í rúma sjö áratugi. Þar mun einnig

bregða fyrir Jóni Magnússyni forsætisráðherra og Kristjáni X Danakonungi, að ógleymdum bóhemum úr Mjólkurfélagi heilagra.

Á Hverfisgötu 45, sem Matthías Einarsson læknir byggði árið 1914 og er talið eitt elsta dæmið um íslenska steinsteypuklassík í Reykjavík, var seinna Sendiráð Noregs og þar á eftir Söngskólinn í Reykjavík í tæpan aldarfjórðung.

Garðar Cortes, skólastjóri Söngskólans, mun rifja upp minningar úr sögu

skólans þar. Á bak við Hverfisgötu 45 eru svo tvö hús sem einnig tilheyra hótelinu; Veghúsastígur 7 og 9. Þar lýkur dagskránni með frásögn af smjörlíkisgerð,

bókaútgáfu og annarri menningarstarfsemi á vegum Ragnars Jónssonar í Smára á Veghúsastíg 7, og af Bergi Einarssyni sútara, sem byggði Veghúsastíg 9, Bergshús, þar sem hann bjó ásamt fjölskyldu sinni og sútaði skinn.Brúarsmiðjan og PORT hönnun hafa sett upp sögusýningar á göngum

hótelsins í húsunum fjórum, þar sem stiklað á sögu húsanna og þeirrar starfsemi sem þar fór fram áður en þau fengu nýtt hlutverk. Uppistaðan í sýningunni eru ljósmyndir, fengnar að láni frá Ljósmyndasafni Reykjavíkur,

Ljósmyndasafni Íslands, Félagi bókagerðarmanna, Söngskólanum í Reykjavík og úr einkasöfnum, og með fylgja stuttir textar á íslensku og ensku.

Dagskráin á Menningarnótt hefst kl. 14 á Hverfisgötu 21. Þaðan verður haldið upp á Hverfisgötu 45 um kl. 15 og loks yfir á Veghúsastíg 7 og 9. Gert er ráð fyrir að leiðsögn ljúki um kl. 17.

Allir eru hjartanlega velkomnir – og aðgangur er ókeypis.

hér er tengill á viðburðinn á facebook   https://www.facebook.com/events/606288146159157/?ref=22

Til baka

Póstlisti