Fréttir

Nýtt úrræði fyrir atvinnulausa

13 sep. 2011

Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Vinnumálastofnun skrifuðu nú í morgun undir samstarfssamning, sem miðar að því að skapa aukin tækifæri fyrir fólk í atvinnuleit með fræðslu, handleiðslu og virkri eftirfylgni við þróun eigin viðskiptatækifæra.

Þetta nýja úrræði tekur gildi í dag 1. september 2011 en það felur í sér að allir atvinnuleitendur, sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins og vilja vinna að eigin viðskiptahugmynd, geta sótt um þátttöku í verkefninu, sem ber heitið „Eigið frumkvöðlastarf“.

Atvinnuleitendur fá fræðslu um undirbúning, stofnun og rekstur fyrirtækja frá sérfræðingum Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og stuðning við að skapa sér sín eigin atvinnutækifæri. Samstarfinu er þannig ætlað að auka líkurnar á því að atvinnuleitendur bæti við eða viðhaldi reynslu sinni og þekkingu, upplifi sig í nýju umhverfi og nýti tíma sinn og kraft á jákvæðan og uppbyggjandi hátt, sjálfum sér til framdráttar.

Verkefnið getur varað í allt að sex mánuði, en hægt er að sækja um framlengingu í aðra sex mánuði ef viðskiptahugmyndin inniheldur mikla nýsköpun og er ekki í beinni samkeppni við innlenda starfsemi.

Nánari upplýsingar um verkefnið er að finna hjá Vinnumálastofnun

Til baka

Póstlisti