Nýr kjarasamningur við Samtök atvinnulífsins
6 maí. 2011
Viðræðunefnd FBM undirritaði í gærkvöld nýjan kjarasamning við Samtök atvinnulífsins til þriggja ára. Samningurinn felur í sér almennar launahækkanir upp á rúmlega 11% á samningstímanum og hækkun á launatöxtum um kr. 34.000 auk hækkunar á orlofs- og desemberuppbót og eingreiðslu kr. 50.000 sem greiðist út við undirskrift.
Myndina tók Ómar Óskarsson ljósmyndari
Viðræðunefnd FBM: Efri röð, Stefán Ólafsson, Óskar R. Jakobsson, Páll Reynir Pálsson. Fremri röð, Þorkell S. Hilmarsson, Georg Páll Skúlason, Oddgeir Þór Gunnarsson og Anna S. Helgadóttir.
Almennar launahækkanir
1.júní 2011 – 4,25%
1.febrúar 2012 – 3,5%
1.febrúar 2012 – 3,25%
Aðrir kjaratengdir liðir taka sömu breytingum hlutfallslega á sömu dagsetningum, nema um annað hafi samist.
Eingreiðsla
Þann 1. júní verður greitt út eingreiðsla kr. 50.000 til allra nema þeirra sem látið hafa af störfum eða hafið störf á tímabilinu frá mars til apríl á þessu ári.
Kauptaxtar
Mánaðarlaun kauptaxta hækka um kr. 12.000 árið 2011, kr. 11.000 árið 2012 og kr. 11.000 árið 2013.
Flokkstjórar/vaktstjórar
Sveinar sem sérstaklega eru ráðnir til að hafa á hendi flokksstjórn / vaktstjórn eða umsjón verka skv. skriflegum ráðningarsamningi, en ganga jafnframt til almennra starfa iðnaðarmanna, skulu fá greitt sérstaklega fyrir stjórnunarlega ábyrgð og hafa sem svarar 15% hærri laun en þeir ella hefðu.
Frí í stað yfirvinnu
Heimilt er með samkomulagi milli starfsmanns og vinnuveitanda að greiða fyrir störf, sem unnin eru á yfirvinnutímabili, með fríum á dagvinnutímabili. Heimilt er að viðhafa tvenns konar fyrirkomulag, safna vinnustundum í yfirvinnu og greiða út yfirvinnuálagið (mismun dagvinnu- og yfirvinnutímakaups) næsta útborgunardag eða breyta yfirvinnutímum þannig að ein klukkustund í yfirvinnu jafngildir 1,8 klst. í dagvinnu (4,44 klukkustundir í yfirvinnu jafngilda 8 klukkustundum í dagvinnu). Uppsafnaðir frítímar skv. framangreindu skulu veittir í hálfum og heilum dögum utan annatíma í starfsemi fyrirtækis í samráði við starfsmann.
Lágmarkstekjur fyrir fullt starf
Lágmarkstekjur fyrir fullt starf, fullar 173,33 unnar stundir á mánuði (40 stundir á viku), skulu vera sem hér segir fyrir starfsmenn 18 ára og eldri sem starfað hafa fjóra mánuði samfellt hjá sama fyrirtæki:
1. júní 2011 kr. 182.000 á mánuði.
1. febrúar 2012 kr. 193.000 á mánuði
1. febrúar 2013 kr. 204.000 á mánuði
Desemberuppbót
Desemberuppbót fyrir hvert almanaksár miðað við fullt starf er:
2011:
Á árinu 2011 kr. 48.800.
Á árinu 2011 greiðist sérstakt álag á desemberuppbót, kr. 15.000, nema að ASÍ hafi ákveðið að samningarnir gildi til loka janúar 2012.
2012:
Á árinu 2012 kr. 50.500.
2013:
Á árinu 2013 kr. 52.100.
Orlofsuppbót
Orlofsuppbót fyrir hvert orlofsár (1.maí til 30. apríl) miðað við fullt starf er:
2011:
Á orlofsárinu sem hefst 1. maí 2011 verði orlofsuppbót kr. 26.900.
Á árinu 2011 greiðist sérstakt álag á orlofsuppbót, kr. 10.000, nema að ASÍ hafi ákveðið að samningarnir gildi til loka janúar 2012.
2012:
Á orlofsárinu sem hefst 1. maí 2012 verði orlofsuppbót kr. 27.800.
2013:
Á orlofsárinu sem hefst 1. maí 2013 verði orlofsuppbót kr. 28.700.
Endurskoðunarákvæði (Rauð strik)
Í samningnum eru endurskoðunarákvæði í júní 2011, janúar 2012 og janúar 2013 þar sem forsendur samningsins eru metnar.
Lífeyrismál
Yfirlýsing samningsaðila um að lífeyrissjóðsiðgjöld munu hækka úr 12% í 15,5% á árunum 2014 til 2020. Einnig fylgir í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar að unnið verði að jöfnun lífeyrisréttinda á milli almenna og opinbera markaðarins sem gæti falist í inngreiðslu ríkisins til jöfnunar á milli kerfa á næstu tíu til fimmtán árum.
Yfirlýsing ríkisstjórnarinnar
Að auki fylgir í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar fyrirheit um átak gegn svartri atvinnustarfsemi, hæfnisskilyrði forsvarsmanna fyrirtækja (kennitöluflakk), bæting á réttarstöðu starfsfólks við gjaldþrot og sölu þeirra til nýrra eigenda en við það haldi starfsmenn áunnum réttindum s.s. orlofi og veikindarétti. Samkomulag er um að taka lögin um opinber innkaup til endurskoðunar þar sem við mat á tilboðsgjöfum skal metið hvort starfsmenn séu í föstu ráðningarsambandi eða gerviverktakar. Kveðið er á um í yfirlýsingunni að auka fjárfestingar í landinu um 150 milljarða á ári. Þær framkvæmdir á vegum hins opinbera sem taldar eru upp í yfirlýsingunni eru upp á 13 milljarða til ársloka 2012. Í yfirlýsingunni er kveðið á um menntamál og vinnumarkaðsúrræði þar sem sett eru fram markmið um lækkun hlutfalls þeirra sem ekki hafa lokið framhaldsskólamenntun úr 30% í 10% árið 2020. Framhaldsskólunum verður í því sambandi gert kleift að taka inn haustið 2011 þá umsækjendur sem eru yngri en 25 ára og uppfylla skilyrði. Gert er ráð fyrir að átakið kosti 500 miljónir á ársgrundvelli.
Samningur FBM og SA í heild sinni hér
Samningur ASÍ og SA í heild sinni hér
Yfirlýsing ríkisstjórnarinnar í heild sinni hér
Kosning um samninginn mun fara fram meðal félagsmanna FBM á næstu dögum