Fréttir

Á miðstjórnarfundi ASÍ miðvikudaginn 1. apríl var eftirfarandi ályktun samþykkt

2 apr. 2009

Á miðstjórnarfundi ASÍ miðvikudaginn 1. apríl var eftirfarandi ályktun samþykkt. Á aukaársfundi Alþýðusambands Íslands þann 25. mars kom fram að siðferðilegur og fjárhagslegur trúverðugleiki lífeyrissjóðanna skiptir sköpum fyrir lífeyriskerfið. Lífeyrissjóðirnir eru hluti af umsömdum og kjarasamningsbundnum réttindum launafólks og á þeim grunni eru stjórnir þeirra kjörnar, af stéttarfélögum og atvinnurekendum að jöfnu.

Ályktun miðstjórnar ASÍ um málefni lífeyrissjóðanna:

Á aukaársfundi Alþýðusambands Íslands þann 25. mars kom fram að siðferðilegur og fjárhagslegur trúverðugleiki lífeyrissjóðanna skiptir sköpum fyrir lífeyriskerfið. Lífeyrissjóðirnir eru hluti af umsömdum og kjarasamningsbundnum réttindum launafólks og á þeim grunni eru stjórnir þeirra kjörnar, af stéttarfélögum og atvinnurekendum að jöfnu. Þessir aðilar bera því ríka ábyrgð á allri starfsemi lífeyrissjóðanna.

Í framhaldi af samþykktum aukaársfundar ASÍ og í ljósi þeirrar umræðu og gagnrýni sem verið hefur í fjölmiðlum undanfarið vill miðstjórn ASÍ árétta að hún lítur á það sem mikilvægt verkefni verkalýðshreyfingarinnar að taka af mikilli festu og ábyrgð á þeim álitamálum og gagnrýni sem upp hefur komið. Þetta vill miðstjórn ASÍ gera með eftirfarandi hætti:

1. Óska eftir því að Fjármálaeftirlitið kanni sérstaklega hvort lífeyrissjóðir hafi á undanförnum árum starfað eftir lögum, samþykktum og fjárfestingarstefnu. Jafnframt verði sérstök úttekt gerð á uppgjöri sjóðanna vegna ársins 2008 með hliðsjón af áhrifum fjármálakreppunnar á verðmæti eigna.

2. Lífeyrisnefnd ASÍ og skipulags- og starfsháttarnefnd ASÍ setji fram eins fljótt og verða má tillögur að siðareglum um fjárfestingar sjóðanna og fyrirmyndareglur um daglega starfsemi þeirra, þ.m.t. starfskjör, gjafir, risnu og ferðalög, og þær verði kynntar fyrir ársfundi lífeyrissjóðanna.

3. Vegna þess sem liðið er beinir miðstjórn ASÍ því til fulltrúa launafólks í stjórnum lífeyrissjóðanna að óskað verði þegar í stað eftir því að innri endurskoðendur lífeyrissjóðanna geri sérstaka úttekt á starfsemi þeirra undanfarin ár. Mikilvægt er í þessari skoðun að fá fram skýrar upplýsingar um þátttöku í ferðum eða móttöku á gjöfum. Sérstaklega verði óskað eftir því að ferðir verði flokkaðar eftir því hvort um hafi verið að ræða skemmtiferðir í boði annarra, hreinar fagferðir í boði annarra , embættisferðir á vegum sjóðsins eða ferðir sem sameina einhver eða öll ofangreind einkenni.

Miðstjórn ASÍ telur mikilvægt að ofangreindar upplýsingar verði birtar og gerðar aðgengilegar sjóðsfélögum og almenningi.

Miðstjórn ASÍ harmar þann fréttaflutning og framsetningu sem fjölmiðlar hafa kosið að nota í umfjöllun um málefni lífeyrissjóðanna, þar sem stjórnir og starfsmenn þeirra eru ómaklega ásökuð um refsiverða framsetningu ársreikninga og réttinda sjóðsfélaga. Alþýðusambandið hefur lengi lagt á það áherslu, að eignir og skuldbindingar lífeyriskerfisins séu á hverjum tíma gerðar upp á raunhæfan og trúverðugan hátt. Það uppgjör sé byggt á mati bæði löggiltra endurskoðenda og tryggingarstærðfræðinga, stutt af skýrum reglum og eftirliti Fjármálaeftirlitsins.

Miðstjórn telur að í umfjöllun um þátttöku stjórna og starfsmanna lífeyrissjóðanna í ferðum skipti máli að gerður sé skýr munur á þátttöku í skemmtiferðum í boði annarra og ferðum á vegum viðkomandi sjóðs til að fylgja eftir mikilvægum hagsmunum hans. Einnig er ástæða til að fjalla um fagferðir í boði annarra. Þá þarf sérstaklegaað fjalla um ferðir þar sem reynt er að blanda saman fagferðum og skemmtiferðum. Um þetta þarf að setja skýrari reglur fyrir stjórnendur og starfsmenn sjóðanna þannig að þeir eigi auðveldara með að taka afstöðu þegar slík boð koma. Um þetta gilda þó einnig almennar og óskrifaðar siðferðisreglur og ætti að liggja í augum uppi að það er hvorki viðeigandi né afsakanlegt að taka þátt í skemmtiferðum í boði annarra sem samrýmast á engan hátt starfsemi sjóðanna eða hagsmunum sjóðsfélaga. Því er óhjákvæmilegt að kalla þá til ábyrgðar sem hafa orðið uppvísir að slíku, þó formlegum reglum hafi ekki verið til að dreifa.

Miðstjórn ASÍ telur að opin umræða og fjölmiðlar skipti miklu máli í okkar samfélagi og að þeir eigi að veita mikilvægt og nauðsynlegt aðhald í samfélaginu. Að sama skapi er mikilvægt að fjölmiðlar vandi til slíkrar umfjöllunar og fari ekki fram með opnar og órökstuddar ásakanir á hendur fjölda manna á grundvelli dylgna og sleggjudóma.

Til baka

Póstlisti