Fréttir

Magnús Einar Sigurðsson minning

3 feb. 2022

Magnús Einar Sigurðsson prentari, fyrsti formaður Félags bókagerðarmanna og heiðursfélagi Grafíu stéttarfélags lést 1. febrúar s.l. í Svíþjóð. Ég vil minnast félaga míns í nokkrum orðum og gríp niður í hans eigin frásögn.

Allt fór á fleygiferð þegar ég fór á námssamning í setningu í Odda hjá þeim mæta manni Baldri Eyþórssyni. Í Odda voru margir frábærir félagar, ef ekki allir. Þar var mikil umræða um félagsmál og stéttabaráttuna svo samhliða því að nema setningu, þá var maður í stöðugri félagsmálafræðslu hjá þeim Jóni Ágústssyni, Lúther Jónssyni, Ellert Ág. Magnússyni, Meyvant Hallgrímssyni, Gísla Guðjónssyni, svo bara nokkrir séu nefndir af þeim fjölmörgu sem þarna störfuðu og höfðu áhrif á okkur sem yngri voru. Svo ögn seinna komu til starfa Sverrir Marinósson, Haraldur Blöndal o.fl sem létu ekki sitt efir liggja. Semsagt fljótlega fór ég að skipta mér af félagsmálum okkar bókagerðarmanna. Var valinn formaður nemafélagsins og síðar Iðnnemasambands Íslands. Þegar námi lauk lenti ég í stjórn Hins íslenska prentarafélgs sem ritari.

Nemafélagið hafði aðstöðu í kjallaranum á Hverfisgötu 21 og þar hafði bókasafn HÍP einnig aðstöðu og þar var Stefán Ögmundsson oft að störfum og við nemarnir spjölluðum mikið við hann og hann hafði mikil áhrif á félagsmálaáhuga okkar.

Árið 1976 flutti ég til Borås í Svíþjóð og hóf störf á dagblaði sem bar nafnið Västgöta Demokraten og þar hélt „félagsmálafræðslan“ áfram því þar var mikil umræða um þjóðfélagsmál og stéttabaráttu og ég tók þátt í námskeiðum um réttindamál verkafólks á hinum ýmsu sviðum. Þarna starfaði ég til ársloka 1979 og kom þá heim og hóf störf á skrifstofu Hins íslenska prentarafélags og starfaði þar með þeim mæta félaga Ólafi Emilssyni. Í hönd fóru síðustu ár  HÍP, BFÍ og Grafíska sveinafélagsins. Unnið var ötullega að sameiningu þeirra. En áður var ég kosinn varaformaður HÍP. Ég var svo kosinn formaður hins nýstofnaða félags, Félags bókagerðarmanna og gegndi formennsku í átta ár, en gaf þá ekki kost á mér til endurkjörs og hóf aftur störf í faginu hjá Mbl og síðar Prentþjónustunni. Á fyrstu árum FBM fór töluverð orka í að halda þeim hópum saman sem höfðu stofnað FBM, viss tortryggni var til staðar, en hægt og bítandi var henni eytt. Þá voru á þessum fyrstu árum hörð átök við samtök atvinnurekenda sem enduðu með verkföllum. Höfuð deilan var um að rétta kjör þeirra sem minnstu launin höfðu, þ.e. aðstoðarfólksins en þar voru konur í miklum meirihluta. Þau átök sem áttu sér stað á þessum fyrstu árum þjöppuðu félagsmönnum enn betur saman. Á þessum fyrstu átta árum félagsins sem ég var formaður var ég jafnframt ritstjóri Prentarans, en það var afar skemmtilegur þáttur af starfinu. Á þessum fyrstu árum voru  jafnframt töluverð erlend samskipti bæði við NGU og IGF.

Ég flutti aftur til Svíþjóðar árið 1991 og hóf störf í Götene tryckeri. Þar starfaði ég í tvö ár, en þá hafði byrjað verulegur samdráttur í  prentiðnaðnum í Svíþjóð og við vorum 25 sem sagt var upp vegna samdráttar og reglan í Svíþjóð var að þeir sem síðast voru ráðnir til starfa er fyrst sagt upp. Nú var ég semsagt atvinnulaus. Fljótlega fékk þó ýmisskonar skamtímaverkefni á vegum verkalýðshreyfingarinnar. Ég var kosinn í stjórn svæðisfélags bókagerðarmanna og síðar formaður og svo formaður bókagerðarmanna í Västra Götaland og í stjórn Grafiska Fackförbundet. Síðar var ég svo ráðinn starfsmaður GF í Västra Götaland og þá varð ég að hætta sem stjórnarmaður, það var og er regla. Síðar sameinuðust  Grafiska Fackförbundet með samtökum skógs og tréiðnaðarfólks og ég hélt þá áfram sem starfsmaður eða þar til ég fór á eftirlaun 65 ára eins og lög gera enn ráð fyrir í Svíþjóð.

Á þessum árum í Svíþjóð var ég svo heppinn að félagar mínir í FBM fólu mér oft að vera með á fundum erlendis sem túlkur og það var verulega gaman að fást við þau verkefni þó ég hafi ekki verið menntaður til þeirra starfa, en við gerðum eins vel og við gátum og gott og gaman var að hitta og starfa í nokkra daga með félögum að heiman.

Magnús Einar fæddur 24. apríl 1949. Varð félagi 13. september 1972. Hóf nám á námssamningi í Prentsmiðjunni Odda og í Iðnskólanum í Reykjavík í setningu 1968-1972, sótti sex mánaða námskeið í offsetprentun 1995-1996 á vegum Grafo-Media, Svíþjóð. Starfaði í Prentsmiðjunni Odda 1968-1976, Prentþjónustunni hf. 1976 og aftur 1990, Västgöta-Demokraten, Borås, Svíþjóð 1976-1979, Hinu íslenska prentarafélagi 1979-1980, Félagi bókagerðarmanna 1980-1988, Þjóðviljanum 1988, Morgunblaðinu 1988-1990, Götene Trykeri í Svíþjóð 1991-1992, verkefni á vegum verkalýðshreyfingarinnar í skara, Svíþjóð 1992-1995. Ritstörf: Greinar í Prentaranum og dagblöðum. Ljóð: 1971. Félags- og trúnaðarstörf: Formaður Prentnemafélagsins í Reykjavík 1968-1969, formaður Iðnnemasambands Íslands 1969-1970 og 1971-1972, ritari Hins íslenska prentarafélags 1973-1976, varaformaður HÍP 1980, fyrsti formaður Félags bókagerðarmanna 1980-1988, ritstjóri Prentarans 1980-1988, í Öryggisnefnd prentiðnaðarins, í laganefnd FBM, í úthlutunarnefnd atvinnuleysisbóta, í trúnaðarmannaráði FBM 1989-1990, í stjórn deildar 47, Skara, formaður bókagerðarmanna í Västra Götaland og í stjórn Grafiska Fackförbundet og ráðinn starfsmaður GF í Västra Götaland. Síðar sameinuðust Grafiska Fackförbundet með samtökum skógs og tréiðnaðarfólks í GS og var starfsmaður félagsins til eftirlaunaaldurs 65 ára í samræmi við lög í Svíþjóð.

Magnús aðstoðaði FBM við þýðingar og túlkun á Norrænum fundum á vettvangi Nordisk Grafisk Union í nokkur ár eftir að hann flutti til Svíþjóðar 1991.

Eins og fram kemur að ofan átti Magnús stóran þátt í að leiða bókagerðarmenn saman á sínum tíma og leggja grunn að því sem við byggjum enn sterka stöðu félagsins á. Hann var kjörinn heiðursfélagi Grafíu stéttarfélags 2018.

Grafía stéttarfélag í prent- og miðlunargreinum sendir samúðarkveðjur til Kicki Borhammar og fjölskyldu Magnúsar og þakkar honum óeigingjarnt starf í gegnum árin en hann helgaði líf sitt verkalýðsbaráttu. Blessuð sé minning félaga okkar Magnúsar Einars Sigurðssonar.

Georg Páll Skúlason formaður Grafíu.

Til baka

Póstlisti