Kyrrstaðan rofin – kjaraviðræður á fullt skrið eftir helgi
11 feb. 2011
Samninganefndir ASÍ og SA hafa í gær og í dag rætt mögulega tímalengd og uppbyggingu væntanlegs kjarasamnings. Aðilar hafa orðið sammála um að setja kraft í kjaraviðræður sem miðast við gerð samnings til 3 ára. Reyna á að ljúka þeirri vinnu eins hratt og mögulegt er. Hugmynd aðila er að efni slíks kjarasamnings myndi öðlast gildi í júní að því gefnu að aðilar vinnumarkaðarins nái samkomulagi við ríkisstjórn og Alþingi um tilteknar aðgerðir. Takist ekki að sameinast um grundvöll slíks samnings myndi hann breytast í skammtímasamning.
Í þessum hugmyndum er gert ráð fyrir að til launabreytinga komi strax við undirritun en að samningurinn öðlist ekki fullt gildi fyrr en í júní. Í viðtali við forseta ASÍ kom fram að hann teldi afar mikilvægt að tekist hefði að rjúfa þá kyrrstöðu sem samningaviðræður voru komnar í og væntir hann þess að þær fari af stað fyrir alvöru á ný eftir helgi.