Fréttir

Af tilraun til kviksetningar Alþýðusambandsins

11 nóv. 2009

Ragnar Þór Ingólfsson, stjórnarmaður í VR, bloggaði í gær um kistulagningu ASÍ þar sem hann setur fram spurninguna ,,Er það rétt að ASÍ hafi átt frumkvæðið að frestun launahækkana?´´ og svarar síðan þessari spurningu með því að vitna til sérstaks minnisblaðs sem framkvæmdastjóri og aðstoðarframkvæmdastjóri SA (VE/HGS) tóku saman um viðræðurnar við ASÍ í lok febrúar s.l. og sendu til aðildarfyrirtækjanna. Ragnar segir þetta minnisblað vera frá ASÍ komið.Sú fullyrðing er röng eins og kemur reyndar fram í bréfhausnum auk þess sem efnistök sýna greinilega að svo er ekki. Það er í rauninni ótrúlegt að stjórnarmaður í VR, sem er stærsta aðildarfélag ASÍ, skuli setja fram ásakanir um að samninganefnd ASÍ, þar sem í sitja forseti ASÍ, formenn allra landssambanda innan ASÍ, fulltrúi félaga með beina aðild auk formanna VR og Eflingar, hafi af ásetningi lagt sig fram um að hafa af félagsmönnum sínum umsamdar launahækkanir án þess að kynna sér betur opinber gögn í málinu.

Í byrjun janúar 2009 var ljóst að vegna gjaldmiðlakreppunnar og aukinnar verðbólgu myndu forsendur kjarasamninga ekki standast. Við þær aðstæður hefði annar hvor aðilinn eða báðir geta sagt upp kjarasamningum frá og með 1. mars. Um svipað leiti lýsti SA því yfir að aðildarfyrirtækin treystu sér ekki til að standa við ákvæði kjarasamninga um launahækkanir, nema til kæmi sveigjanleiki um tímasetningar launahækkana.

Í framhaldi af því lagði SA til við samninganefnd ASÍ tvo kosti. Annars vegar að fresta öllum launahækkunum sem koma áttu til framkvæmda 1. mars til haustsins og taka þá ákvörðun um framlengingu eða uppsögn kjarasamninga og hins vegar að ganga strax frá ákvörðun um að öllum launahækkunum sem koma ættu 1. mars yrði frestað til 1. janúar 2010 og launahækkunum 1. janúar 2010 verði frestað til loka árs 2010 og verði hluti af upphafshækkun í næsta kjarasamningi. Þetta kom ekki einungis fram á fundum okkar, heldur settu forystumenn SA þetta opinberlega fram í bók þeirra ,,Hagsýn  framsýn og áræðin atvinnustefna’’ á bls. 11:

‘’Samtök atvinnulífsins telja mikilvægt að leita samkomulags um breytingar og

æskilegt er að tryggja frið á vinnumarkaði á næstu misserum. Þær leiðir sem til

greina koma eru m.a. að fresta öllum launahækkunum fram á haust og taka þá

ákvörðun um framlengingu samninga eða uppsögn en þá mun liggja betur fyrir

hvernig efnahagslægðin þróast og hversu mikið vextir og verðbólga hafa lækkað.

Þá kemur til greina að ákveða strax nýja tímapunkta fyrir þær hækkanir sem samið

hefur verið um annað hvort með eða án opnunarákvæðis á milli hækkana til þess

að endurmeta stöðuna. Ennfremur kemur til greina að launahækkunum 1. mars

verði frestað og taki gildi t.d. í byrjun næsta árs. Á síðari hluta árs 2010 verði síðan

ákveðið hvenær umsamin launahækkun 1. janúar 2010 komi til framkvæmda.’’

Báðum þessum hugmyndum hafnaði samninganefnd ASÍ strax og tilkynnti SA að við myndum aldrei samþykkja svona mikla frestun á launahækkunum – þeir gætu eins sagt kjarasamningum upp strax. Auðvitað kom til álita að halda kröfu okkar um að allar launabreytingar kæmu til framkvæmda á fyrirfram ákveðnum tímasetningum og láta á það reyna hvort SA segði sig frá samningnum. Í minnisblaði SA segir ,,SA hafa ekki sett fram neina úrslitakosti í viðræðunum en hugur okkar hefur staðið til þess að leita álits allra aðildarfyrirtækja í rafrænni skoðanakönnun á uppsögn samningsins ef ASÍ neitaði öllum óskum um sveigjanleika og vildi halda samningnum óbreyttum.‘‘ Í ljósi þess að vaxandi ólga var meðal aðildarsamtaka SA um samninginn – sem hafði verið mjög áberandi hjá Samtökum iðnaðarins og Samtökum verslunar og þjónustu sem saman mynda meirihluta í SA – var það mat samninganefndar ASÍ að slík atkvæðagreiðsla myndi leiða til uppsagnar. Þetta var einnig mat forystumanna SA, þó þeir hafi ekki sagt það opinberlega.

Í ljósi þess alvarlega ástands sem var í þjóðfélaginu var úr vöndu að ráða. Ríkisstjórnin hafði riðað til falls og ekki líklegt að minnihlutastjórn gæti tekið afdrífaríkar ákvarðanir um ríkisfjármál eða efnahagsmál. Á ársfundi ASÍ í október 2008 var gerð rík krafa til þess að stjórnvöld og Seðlabanki legðu sitt af mörkum til að tryggja hér stöðugleika og afstaða verkalýðshreyfingarinnar til framlengingar kjarasamninga myndi ráðast af trúverðugu uppleggi þeirra í efnahags-, atvinnu- og velferðarmálum. Þegar ljóst var að kosið yrði til Alþingis 25. apríl lagði samninganefnd ASÍ til við formenn allra aðildarfélaga þann 23. janúar að til að forða uppsögn kjarasamninga yrði viðræðum um endurskoðun kjarasamninga frestað til loka júní, þegar ný ríkisstjórn yrði tekin við völdum og hægt yrði að fara í þríhliða viðræður. Niðurstaða þeirra viðræðna er öllum ljós.

Á síðari formannafundinum 16. febrúar kom í ljós að fulltrúar fyrir yfir 90% okkar félagsmanna sem starfa eftir þessum kjarasamningi samþykkti þessa aðferðafræði en fulltrúar sex félaga voru þessu ósammála. Við því er ekkert að segja, þannig eru leikreglur lýðræðisins en flest þessara félaga lýstu síðar yfir stuðningi við ákvörðun meirihlutans.

Þetta ferli reynir Ragnar Þór að tortryggja með því að vitna í minnisblaði SA þar sem segir að ,,Þessu svaraði ASÍ með því að setja fram þá hugmynd að öllum launabreytingum 1. mars yrði frestað til 1. júlí og að í júnímánuði yrðu teknar ákvarðanir um framhaldið.  Viðræður aðila hafa byggst á þessari hugmynd.‘‘ Ef þessi framsetning SA í minnisblaðinu er sett í samhengi við fyrri tillögur þeirra um enn meiri frestun launahækkana, jafnvel uppsögn þeirra, liggur í augum uppi að um er að ræða viðbrögð okkar við tillögum SA, en ekki frumkvæði að slíkum breytingum. Fullyrðingar Ragnars Þórs um að krafan um frestun hafi verið að frumkvæði samninganefndar ASÍ eru því algerlega úr lausu lofti gripnar. Við vorum einfaldlega að vinna út frá þeirri meginkröfu aðildarsamtaka ASÍ að verja kjarasamninginn okkar með því að sigla milli skers og báru þannig að til launahækkananna myndi koma.

Ekki veit ég til hvers haldið er áfram að staglast á þessari niðurstöðu og reyna þannig að viðhalda ágreiningi innan verkalýðshreyfingarinnar mánuðum saman. Alþýðusambandið hefur í þrígang staðið frammi fyrir raunverulegum möguleika á að atvinnurekendur segðu upp kjarasamningum á þessu ári. Í öll skiptin tókst að forða að til slíks kæmi, nú síðast 27. október þegar ljóst var að okkur tókst ætlunarverkið að tryggja að umsamdar launahækkanir koma til framkvæmda, þó með seinkunum sé. Til hvers þetta á að leiða veit ég ekki og skil reyndar alls ekki. Mér er það hins vegar stórlega til efs að það væri til heilla fyrir launafólk að kviksetja Alþýðusambandið með slíkum leirburði.

Gylfi Arnbjörnsson,

forseti Alþýðusambandsins

Til baka

Póstlisti