Kosning um kjarasamning FGT deildar og SÍA
21 mar. 2014
Kosið verður um kjarasamning FBM og Félags atvinnurekenda/Samband íslenskra auglýsingastofa (SÍA), sem undirritaður var 13. mars s.l., í póstatkvæðagreiðslu. Kjörgögn verða send út á næstu dögum og stendur atkvæðagreiðsla til kl. 16, miðvikudaginn 9. apríl n.k.
Kynning á kjarasamningnum fylgir einnig með kjörgögnum.
Ef kjörgögn berast ekki heim til félagsmanna sem eru kjörgengir biðjum við viðkomandi að hafa samband við skrifstofu félagsins og tilkynna það í síma 552 8755. Allir félagsmenn FGT deildar sem eru í atvinnu eða atvinnuleit eru kjörgengir.
Við hvetjum félagsmenn að taka þátt í atkvæðagreiðslunni.
Samningurinn hefur það að markmiði að auka kaupmátt, tryggja lága verðbólgu og undirbyggja stöðugleika. Samningurinn er aðfararsamningur að lengri samningi sem unnið verður að á vettvangi samningsaðila á árinu 2014, en gildistíminn á nýja samningnum er frá 1. janúar 2014 til 28. febrúar 2015. Eftirtalin atriði eru helstu atriði aðfararsamningsins en samningurinn er jafnframt birtur í heild sinni í kynningarefninu vegna atkvæðagreiðslu samningsins:
Kaupliðir
Almenn launahækkun Hinn 1. janúar 2014 skulu laun hækka um 2,8%, þó að lágmarki kr. 8.000 á mánuði fyrir dagvinnu miðað við fullt starf. Aðrir kjaratengdir liðir hækka um 2,8% á sama tíma.
Desember- og orlofsuppbót
Desemberuppbót miðað við fullt starf er á árinu 2014 kr. 73.600.
Orlofsuppbót (1.maí til 30. apríl) miðað við fullt starf er á árinu 2014 kr. 39.500.
Framlög til fræðslu- og starfsmenntasjóða hækka um 0,1%.
Helstu ávinningar samningsins
– Almenn launahækkun.
– Hækkun desember- og orlofsuppbóta.
– Aukið fjármagn og kraftur settur í starfsmenntamál.
– Efri mörk í lægsta þrepi tekjuskatts hækka úr 256.000 kr. í 290.000 kr. Skatthlutfall í miðþrepi lækkar úr 25,8% í
25,3%.
– Ráðist verður í markvissar aðgerðir til stuðnings kaupmætti.
– Samstilltar aðgerðir samningsaðila til að halda verðbólgu innan 2,5% markmiðs Seðlabanka Íslands.
Við vonumst til að þegar þú hefur kynnt þér efni samningsins, þá sértu sammála okkur um
kosti hans. Mikilvægast er að þú takir þátt í atkvæðagreiðslunni og sýnir afstöðu þína til
samningsins. Við viljum hvetja þig til að taka þátt og samþykkja samninginn.
F.h. stjórnar og trúnaðarráðs
Félags bókagerðarmanna
Georg Páll Skúlason, formaður
F.h. FGT deildar
Kalman le Sage de Fontenay, formaður