Kjarasamningarnir halda – SA nýtti sér ekki uppsagnarákvæði
28 okt. 2009
Þrátt fyrir að ekki tækist að ná viðunandi lendingu við ríkisstjórnina um ásættanlegan grunn að áframhaldandi samstarfi um stöðugleikasáttmálann ákvað stjórn SA rétt fyrir miðnætti að nýta ekki uppsagnarákvæði okkar kjarasamninga og halda þeir því gildi sínu til loka nóvember árið 2010. Því mun koma til umsaminna launabreytinga 1. nóvember n.k. og 1. júní 2010.
Samninganefnd ASÍ sat á fundi í húsakynnum ASÍ frá kl. 21:00 í gærkvöld til rúmlega miðnættis og beið eftir svörum ríkisstjórnar við kröfum ASÍ og SA um breytingar á framkominni yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar vegna framgangs stöðuleikasáttmálans. Á sama tíma sat stjórn SA á fundi í húsakynnum Samtaka atvinnulífsins. Ljóst var að innihald þessarar yfirlýsingar hefði afgerandi áhrif á afstöðu stjórnar SA til framlengingar samninganna. Eftir erfiðar viðræður undanfarna daga var staða mála mjög tvísýn um miðjan dag og verulegar líkur á að til uppsagnar kæmi. Þegar líða tók á daginn tókst að þoka málum áfram og leit þetta ágætlega út um kvöldmatarleytið, þegar óvænt skilaboð bárust um lykilþætti yfirlýsingarinnar sem setti málið í óvissu á ný. Erfitt reyndist að finna flöt á málinu þar sem fjármálaráðherra var á leið til landsins og ekki hægt að ná í hann. Á ögurstundu rétt fyrri miðnætti var ljóst að ekki tókst að ná viðunandi lendingu við ríkisstjórnina sem við teldum ásættanlegan grunn að áframhaldandi samstarfi um stöðugleikasáttmálann. Þrátt fyrir þessa stöðu ákvað stjórn SA rétt fyrir miðnætti að nýta ekki uppsagnarákvæði okkar kjarasamninga og halda þeir því gildi sínu til loka nóvember árið 2010. Því mun koma til umsaminna launabreytinga 1. nóvember n.k. og 1. júní 2010.
Þess má geta að á lokametrunum tókst að einangra ágreining við ríkisstjórnina við eitt atriði yfirlýsingarinnar og hafa samtökin þegar óskað eftir viðræðum við ríkisstjórnina á morgun til að útkljá þennan ágreining, en vonir okkar standa til að orsökin sé aðallega vegna fjarveru ráðherra og tímaskorts. Ekki er hægt að fara nánar út í efni yfirlýsingarinnar að svo komnu máli.
Samninganefnd ASÍ fagnar því að tekist hefur að verja kjarasamninginn og treystir því að ásættanleg niðurstaða náist um framhald stöðugleikasáttmálans.