Fréttir

Kjarakönnun 2010

4 mar. 2010

Í kjarasamningum SI og FBM er kveðið á um að gera árlega launakönnun og mun Capacent Gallup í samstarfi við Félag bókagerðarmanna og Samtök iðnaðarins kanna kjör félagsmanna FBM eins og þau voru í febrúar 2010.
Könnunin er framkvæmd á meðal félagsmanna í Félagi bókagerðarmanna sem starfa í dag í prentiðnaði og/eða við grafíska hönnun.

Um er að ræða stutta símakönnun og munu spyrlar Capacent Gallup hringja  á næstu dögum og spyrja 12 spurninga. Gott væri að hafa tiltækan launaseðil fyrir febrúarmánuð þegar hringt er. Spurt er um heildarlaun í febrúar 2010, greiðslur fyrir vaktaálag, yfirvinnu og aðrar launatekjur eða hlunnindi. Eins er spurt um vinnutíma, starfsaldur og fyrirkomulag launagreiðslna.

Við ítrekum að það er mjög áríðandi að fá sem nákvæmastar niðurstöður og að allir svari samviskusamlega þannig að niðurstaða könnunarinnar endurspegli kjör félagsmanna og nýtist þeim vel í komandi kjarasamningum.

Farið verður með öll svör sem algert trúnaðarmál og mun Capacent Gallup annast alla gagnavinnslu og framkvæmd könnunarinnar. Capacent Gallup tryggir nafnleynd og að ekki verði á nokkurn hátt unnt að rekja svör til einstakra þátttakenda né fyrirtækja.
Capacent Gallup leggur mikið upp úr trúnaði og öruggri meðferð persónuupplýsinga.  Capacent Gallup starfar eftir ströngum siðareglum sem settar eru af alþjóðasamtökum. Capacent Gallup vinnur samkvæmt ISO 9001 gæðastaðli og fékk fyrirtækið opinbera ISO vottun í júní 2004.

Þeir félagsmenn sem svara könnuninni geta unnið 25.000 króna gjafabréf í Kringlunni. Starfsmenn Capacent Gallup munu sjá um að draga út nöfn vinningshafa og hafa samband við þá þegar gagnaöflun hefur verið lokið.

Til baka

Póstlisti