Fréttir

Iðnaðarmenn standa saman að kjarasamningum við SA

25 feb. 2015

Landssambönd og félög iðnaðarmanna með um 18.000 félagsmenn hafa gert með sér samkomulag um samstarf í komandi kjaraviðræðum. Samkomulagið tekur m.a. til framsetningar á kröfum og markmiðum í aðalkjarasamningum félaganna við SA, samstilltra verkfallsaðgerða og samráðs á vettvangi ASÍ.

Krafa iðnaðarmanna í komandi kjaraviðræðum er endurskoðun á launakerfum iðnaðarmanna með það að markmiði að dagvinnulaun dugi til framfærslu. Hún næst meðal annars með því að auka framleiðni og stytta vinnutíma. Núverandi launakerfi byggir á lágum grunnlaunum sem neyðir launamenn til að halda uppi afkomu sinni með mikilli yfirvinnu.

Mikil þörf er fyrir nýliðun í greinunum en þetta vinnufyrirkomulag er úrelt og hefur skapað starfsumhverfi sem höfðar ekki til ungs fólks. Iðnaðarmenn gera kröfu um fjölskylduvænt samfélag þar sem jafnvægi er á milli vinnutíma og einkalífs.

Félögin telja afar brýnt að unnið verði að fyrirbyggjandi aðgerðum til að koma í veg fyrir félagsleg undirboð á íslenskum vinnumarkaði og komið verði á víðtækara vinnustaðaeftirliti.

Að samkomulaginu standa:

Rafiðnaðarsamband Íslands, SAMIÐN, Félag bókagerðarmanna, MATVÍS, Félag hársnyrtisveina og VM – Félag vélstjóra og málmtæknimanna.

Reykjavík, 24. febrúar 2015

 

samstarf idnadarmanna1

 F.v. Guðmundur Ragnarsson VM, Lilja Sæmundsdóttir FHS, Kristján Þórður Snæbjarnarson RSÍ, Georg Páll Skúlason FBM og Hilmar Harðarsson SAMIÐN. Á myndina vantar Níels S. Olgeirsson MATVÍS. 

Til baka

Póstlisti