Hönnunarsjóður auglýsir eftir umsóknum um ferðastyrki
13 jan. 2014
Opnað hefur verið fyrir umsóknir um ferðastyrki hönnunarsjóðs og hægt verður að sækja um í þessari atrennu til 17. febrúar 2014. Hver ferðstyrkur nemur 100.000 kr.
Ef um fleiri en einn farþega er að ræða, í tilteknu verkefni, er hægt að sækja um fyrir alla farþegana í einni umsókn og nemur þá styrkupphæðin 100.000 kr. á hvern farþega, hljóti umsóknin brautargengi.
Umsóknum skal skilað rafrænt í sérstöku umsóknarformi sem hægt er að nálgast á vefsíðu sjóðsins,sjodur.honnunarmidstod.is
Athygli skal vakin á því að síðar á árinu verður auglýst eftir umsóknum um almenna styrki hönnunarsjóðs en að þessu sinni er einungis opið fyrir umsóknir um ferðastyrki.
Frestur fyrir almennar umsóknir í hönnunarsjóð 2014:
15. apríl. Opnað fyrir umsóknir 15. febrúar.
Áætluð úthlutun um miðjan maí mánuð.
Frestir fyrir umsóknir um ferðastyrki verði sjálfstæðir og oftar á árinu:
17. febrúar. Opnað fyrir umsóknir 6. janúar.
15. apríl. Opnað fyrir umsóknir 15. febrúar.
1. september. Opnað fyrir umsóknir 15. júlí.
1. nóvember. Opnað fyrir umsóknir 15. september.
Um hönnunarsjóð
Hönnunarsjóður heyrir undir mennta- og menningarmálaráðuneyti og er tekjustofn hans árlegt framlag sem Alþingi ákveður á fjárlögum. Í ár er framlag til sjóðsins 25 milljónir króna og fer Hönnunarmiðstöð Íslands ehf. með umsýslu sjóðsins.
Megin hlutverk hönnunarsjóðs er að efla þekkingu, ásamt atvinnu- og verðmætasköpun á sviði hönnunar og arkitektúrs með fjárhagslegum stuðningi. Sjóðurinn styrkir jafnframt kynningar- og markaðsstarf erlendis sem stuðlar að auknum útflutningi íslenskrar hönnunar.
Stjórn hönnunarsjóðs metur styrkhæfi umsókna og ákveður afgreiðslu þeirra. Fimm manna stjórn er skipuð til þriggja ára í senn. Núverandi stjórn Hönnunarsjóðs skipa: Ólafur Mathiesen formaður, skipaður án tilnefningar, Íva Rut Viðarsdóttir varaformaður, Ástþór Helgason og Haukur Már Hauksson, öll tilnefnd af Hönnunarmiðstöð Íslands, ásamt Helgu Haraldsdóttur, tilnefnd af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.