Fréttir

Hjalti Karlsson hlýtur Söderbergs verðlaunin

6 nóv. 2013

Hin virtu Torsten och Wanja Söderbergs verðlaun voru afhent við hátíðlega athöfn í Gautaborg í 5.nóvember en það er íslenski grafíski hönnuðurinn Hjalti Karlsson hlýtur þau í ár. Verðlaunin eru veitt framúrskarandi hönnuði frá Norðurlöndunum á ári hverju síðan 1994 og í verðlaun eru 1 miljón sænskar krónur. 6. nóvember opnaði svo sýningin „This is how I do it“ á verkum Hjalta sem er sérstaklega sett upp af þessu tilefni, í Röhsska Museum.

Í umsögn dómnefndar segir: „Breið nálgun Hjalta Karlssonar á leturgerð, grafískri hönnun og sjónrænum samskiptum byggir á húmanískum og listrænum grundvelli. Verk hans spanna allt frá smáhlutum til heildstæðrar, umfangsmikillar grafískrar upplýsingamiðlunar. Frá tímaritssíðum til hreyfimynda, frá hönnun sýninga með fræðslugildi yfir í staðbundnar listinnsetningar – sjónrænt tungumál Hjalta Karlssonar í samtíma er markað bæði af klassískri menntun og íslenskri sagnahefð.“

Hér má sjá stutta kynningamynd um Hjalta sem gerð var í tilefni verðlaunaafhendingarinnar; kynningarmyndband

Hjalti er eigandi hönnunarstofunnar Karlsson & Wilker í New York og hefur hann starfað þar frá árinu 2000. Þess má á geta að Hjalti Karlsson og Jan Wilker hönnuðu einkenni HönnunarMars 2012

Nánari upplýsingar um Karlsson & Wilker má finna á síðunni karlssonwilker.com

Verðlaunahafar Torsten och Wanja Söderbergs pris
Íslensku hönnuðirnir sem áður hafa hlotið Söderbergs verðlaunin eru Steinnunn Sigurðardóttir fatahönnuður, árið 2008 og Sigurður Gústafsson arkitekt og húsgagnahönnuður, árið 2003.

Nánari upplýsingar um Söderbergs verðlaunin má finna hér.<http://rohsska.se/en/om-rohsska-museet/t-w-soderbergs-pris/>;

Til baka

Póstlisti