Fréttir

Hátíðarhöld 1. maí í Reykjavík fjölsótt

5 maí. 2014

Margir lögðu leið sína í miðborg Reykjavíkur á 1. maí til að taka þátt í kröfugöngu verkalýðsfélaga eins og sjá má á meðfylgjandi myndum.

20140501- MG 9347

20140501- MG 9562

20140501- MG 9648

20140501- MG 9660

1. maí ávarp fulltrúaráðs stéttarfélaganna í Reykjavík

Samfélag fyrir alla

Það eru áleitnar spurningar sem hljóta að leita á huga Íslendinga þessa dagana. Almenningi hefur verið lofað ein af stærstu gjöfum veraldarsögunnar. Núna er víst komið að því að allt falli á ný í hamingjufarveg. Nú á að gera upp hrunið og færa fólki aftur það sem hrifsað var og stolið af því. Einhverjum finnst falskur hljómur í þessari sinfóníu og kallað er eftir því að skoðað sé hvaðan sá falski tónn kemur. Baráttudagur launafólks er vel til þess fallinn að spyrja hvað þjóðin lærði af uppgjöri efnahagshrunsins? Hvað höfum við lært af skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis, skýrslunni um lífeyrissjóðina og núna síðast skýrsluna um fall sparisjóðanna?

Við horfumst enn í augu við gríðarlegt ranglæti sem fylgdi í kjölfar hrunsins. Fjöldi Íslendinga missti nær allar eigur sínar, um helmingur félagsmanna í stórum stéttarfélögunum hér á landi eru eignalausir og hafa í mörgum tilvikum ekki efni á að leigja mannsæmandi húsnæði. Heilbrigðisþjónusta hefur hækkað gríðarlega, fólk neitar sér um lyf og læknishjálp og nýjar rannsóknir sýna að 16% íslenskra barna býr við fátækt. Hverskonar samfélag erum við að reisa á rústum hrunsins? Það er vitað að ójöfnuður er meginástæða fátæktar og félagslegrar einangrunnar. Bilið milli ríkra og fátækra er að aukast og það bil er verið að breikka meðvitað með því að veikja innviði samfélagsins. Meðan stjórnvöld skera niður tekjustofna og færa hinum auðugu digrar gjafir úr sameiginlegum sjóðum þá neitum við börnum um mannréttindi, skólarnir í landinu eru fjárvana, hjúkrunarheimilin hafa flest ekki fjármagn til að mæta sjálfsögðum útgjöldum til launa og lyfjakaupa, vegakerfi landsins liggur undir skemmdum vegna viðhaldsleysis, mikilvægar stofnanir fá ekki rekstrarfé og Landsspítalinn, móðurskip íslenskra heilbrigðismála, lifir á bónbjörgum og gjöfum almennings.

Meðan á þessu niðurbroti samfélagsins stendur þá hafa sárafáir einstaklingar verða látnir sæta ábyrgð fyrir að hreinsa allt fé út úr öllum helstu fjármálastofnunum landsins og stjórnvöld létta í auknum mæli sköttum af fyrirtækjum og Íslendingum sem vita ekki aura sinna tal. Á sama tíma og ranglætið endurspeglast í auðjöfrum sem nú kaupa upp íbúðir í miðborg Reykjavíkur hafa stjórnvöld frumkvæði að því að aflétta auðlegðarskattinum. Við horfum núna á kvótakónga og stórútgerðir tilkynna að þau hyggist flytja fiskiskipin úr landi til að geta grætt meira á fiskimiðum í nálægum löndum. Sjómenn missa í hundruða tali vinnuna og stjórnvöld ákveða að létta sköttum af útgerðarfyrirtækjum. Forgangsröðun stjórnvalda er klár og ómenguð. Þessi sömu stjórnvöld höfnuðu eindregið þeirri kröfu stéttarfélaganna í samningunum í desember að létta skattbyrði þeirra sem hafa lægstu tekjurnar.
Við þessar aðstæður hlýtur verkalýðshreyfingin að skerpa allar áherslur sínar og kröfur á hendur atvinnurekendum og stjórnvöldum.

Verkalýðshreyfingin krefst:

  •     mannsæmandi launa fyrir eðlilegan vinnudag.
  •     að launafólki gefist kostur á góðu húsnæði á viðráðanlegum kjörum.
  •    skattastefnu yfirvalda þar sem áhersla er lögð á að létta sköttum af lágtekjufólki en auka skatta á hátekjufólk og stóreignamenn.
  •     að gert verði stórátak í að útrýma svartri atvinnustarfssemi og kennitöluflakki.
  •    að stjórnvöld hefti græðgisvæðingu fjármálakerfisins og setji ströng lög um viðbótargreiðslur til stjórnenda.
  •  að lyfja- og lækniskostnaður almennings verði lækkaður.
  •  að stjórnvöld sinni nauðsynlegum velferðarúrræðum í heilbrigðis- mennta- og félagsmálum og afli fjár til þess verkefnis með réttmætri skattlagningu.
  •     að stjórnvöld móti stefnu um framtíð gjaldmiðils þjóðarinnar.

Um allan hin vestræna heim hefur græðgin orðið að faraldri. Við þekkjum hvernig kvótakerfið í sjávarútvegi er einhver mesta meinsemdin í íslensku samfélagi. Birtingarmyndin er ofurauður sumra á kostnað allra annarra. Við munum hvernig kvótakerfið komst á. Kerfið átti að stuðla að vernd og vexti fiskistofna og draga úr kostnaði útgerðarinnar. Framkvæmdin varð hins vegar einhver mesta eignatilfærsla Íslandssögunnar. Og nú á að endurtaka leikinn. Verið er að undirbúa nýtt kvótakóngakerfi úr sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar. Vatnsréttindi og orkunýtingarréttindi eru á leið í hendur einstaklinga og landeigendur, sumir hverjir, láta eins og þeir hafa grafið sig niður á gullæðar. Hér verður þjóðin að segja stopp. Við megum ekki láta sjálftökumenn hrifsa föður- og móðurarf af okkur; við eigum náttúru landsins og gjafir hennar saman og við höfum fengið þær til afnota tímabundið. Við höfum íslenska náttúru að láni um stundarsakir frá börnum okkar og við skulum sjá til þess að sá ómetanlegi gimsteinn komist óskemmdur í hendur þeirra.

Dýrmætasta sameign allra Íslendinga er hafið, óspillt náttúra landsins, vatnið okkar, hreint loft og öll þau auðævi sem felast í fegurð landsins og ósnortinni náttúru. Þessi auðævi eigum við saman. Við erum nú að vakna upp við það að náttúruöflin, víðernin og fegurð landsins er orðin okkar helsta tekjulind. Við erum að horfa upp á gríðarlegan vöxt í ferðaþjónustu sem skilar miklu til þjóarbúsins. Á þessu umbreytingarskeiði þarf að vanda til verka. Réttur okkar allra til að eiga saman og njóta náttúrunnar er heilagur. Við búum við sterkan almannarétt til að ferðast um landið okkar. Þennan rétt verðum við að vernda og virða. Það getur aldrei orðið og á aldrei að verða nokkur sátt um að svokallaðir landeigendur fari að rukka almenning um aðgang að Jökulsárgljúfrum, Gullfossi, Geysi, Þingvöllum, Skógarfossi, Drangajökli, Dyrfjöllum eða Heklu. Við eigum þennan fjársjóð saman, við eigum að byggja upp og vernda ferðamannastaðina saman og tekjur af ferðamönnum sem kjósa að njóta náttúrunnar með okkur eiga að renna í sameiginlega sjóði landsmanna. Enga kvótakónga hér takk!

Af nærri hundrað ára sögu íslendinga með sjálfstæðan gjaldmiðil hefur hann verið í einhvers konar höftum stóran hluta þessa tímabils. Undirrótin að áframhaldandi spillingu í landinu og viðvarandi fúski í hagstjórn liggur í gjaldeyrishöftum landsins. Höftin eru gróðarstía misréttis og ranglætis þar sem auðjöfrar og hrunverjar geta flutt gróða hrunáranna til Íslands að nýju og keypt upp eignir okkar á gengi og verði sem íslenskum almenningi býðst ekki.
Það er, og hefur alltaf verið, almennt launafólk sem fyrst og fremst tekur afleiðingum af sveiflum á gengi íslensku krónunnar og er látið borga gróða þeirra sem hagnast á vitleysunni. Stærstu fyrirtækin sem stunda viðskipti á alþjóðlegum mörkuðum og stóru útgerðarfyrirtækin hafa fyrir löngu aðlagað sig að sveiflum íslensku krónunnar með því að færa fjárhag sinn í erlendum gjaldmiðlum.

Það er siðferðileg undirstaða þjóðfélagsins að við Íslendingar, einstaklingar,  fyrirtæki, stofnanir og þjóðríkið búi við sama gjaldmiðil en ekki stéttskiptingu, sem ein og sér gerir hina ríku ríkari og skilur almennt launafólk eftir.

Í dag erum við hér saman komin til að leggja áherslu á eitt sameiginlegt velferðarkerfi, einn sameiginlegan gjaldmiðill, eina sameiginlega náttúru; eitt samfélag – fyrir alla!

Til baka

Póstlisti