Fréttir

Ályktun ASÍ um greiðsluvanda heimilanna

6 maí. 2009

Ályktun um greiðsluvanda heimilanna

Miðstjórn ASÍ lýsir yfir megnri óánægju með seinagang við að endurskipuleggja fjárhag heimilanna, þrátt fyrir að Alþingi hafi samþykkt mikilvægar breytingar á réttar- og samningsstöðu almennings gagnvart kröfuhöfum. Miðstjórnin krefst þess að stjórnvöld tryggi þegar að heimili í vanda geti nýtt sér þau úrræði sem eiga að standa þeim til boða. Til þess að svo verði þarf m.a að:

·  Tryggja að nauðsynlegar reglugerðir og verklagsreglur um framkvæmd verði gefnar út strax.

·  Falla frá kröfunni um að forsenda fyrir aðstoð sé að lán séu í skilum.

·  Gera Ráðgjafastofu um fjármál heimilanna í samráði við héraðsdóm, kleift að ráða a.m.k. 50 fjármálaráðgjafa til næstu 6-9 mánaða til að aðstoða fólk í greiðsluvanda.

·  Heimila sjálfstætt starfandi einstaklingum að nýta sér úrræðin enda sé greiðsluvandinn vegna eðlilegra húsnæðisskulda.

·  Bæta verulega upplýsingagjöf til almennings um þau úrræði sem í boði eru.

Alþýðusambandið á ekkert erindi í nánara samstarf við stjórnvöld um framvindu efnahagsmála fyrr en búið er að koma þessum málum í rétt horf.Áréttuð er tillaga ASÍ um að stofnaður verði Bjargráðasjóður heimilanna þar sem lán sem eru á afskriftareikningum fjármálastofnana verði færð á eina hendi til að tryggja jafnræði og skilvirkni við að endurskipuleggja fjárhag heimilanna.

Til baka

Póstlisti