Fréttir

Frí sund- og bókasafnskort fyrir atvinnuleitendur

27 maí. 2010

Frí sund- og bókasafnskort fyrir atvinnuleitendur á þjónustumiðstöðvum Reykjavíkurborgar

Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti einróma á fundi sínum þann 20. apríl sl. að atvinnuleitendur í Reykjavík og fólk sem nýtur fjárhagsaðstoðar til framfærslu fái frían aðgang að sundstöðum borgarinnar og frí notendakort í Borgarbókasafni Reykjavíkur og útibúum þess til ársloka 2010.

Þeir sem vilja nýta sér tilboðið geta nú sótt um sund- og bókasafnskort hjá þjónustufulltrúum á þjónustumiðstöðvum Reykjavíkurborgar frá 7. til 20. hvers mánaðar.

Óskað er eftir að viðkomandi hafi meðferðis persónuskilríki og sé um atvinnuleitanda að ræða þarf hann að hafa meðferðis síðasta greiðsluseðil frá Vinnumálastofnun.

Ef um sundkort er að ræða þá mun þjónustufulltrúi ganga frá skráningu og upplýsa umsækjanda um í hvaða sundlaug borgarinnar hann geti sótt kortið og hvenær það verði tilbúið.

Ef um bókasafnskort er að ræða þá staðfestir þjónustufulltrúi með bréfi til umsækjenda rétt hans til bóksafnskorts. Umsækjandi framvísar staðfestingunni og persónuskilríkjum á næsta bókasafni sem útbýr bókasafnskortið á meðan beðið er.

Í Reykjavík eru sjö sundlaugar vítt og breytt um borgina. Einnig eru starfandi sjö bókasöfn auk bókabíla sem veita fjölbreytta þjónustu þ.e. útleigu bóka, tímarita, hljómdiska og mynddiska.

Þjónustumiðstöðvar eru í sex hverfum borgarinnar og sinna þjónustu við einstaklinga og fjölskyldur, sérfræðiþjónustu við leik- og grunnskóla, frístundaráðgjöf auk almennrar upplýsingagjafar um starfsemi Reykjavíkurborgar auk þess að sinna félagsstarfi, rekstri þjónustuíbúða og heima- og stuðningsþjónustu svo fátt eitt sé nefnt. Nánari upplýsingar um þjónustumiðstöðvar má finna á heimasíðu Reykjavíkurborgar www.reykjavik.is.

Nánari upplýsingar veitir: Sólveig Reynisdóttir, framkvæmdastjóri þjónustumiðstöðvar Árbæjar og Grafarholts í síma: 411 1200

Til baka

Póstlisti