Fréttatilkynning félaga iðnaðarmanna
14 maí. 2015
Fréttatilkynning félaga iðnaðarmanna vegna atkvæðagreiðslu um vinnustöðvun
Eftirtalin félög og sambönd: VM- Félag vélstjóra og málmtæknimanna, Samiðn, MATVÍS, Rafiðnaðarsamband Íslands, Grafía –(FBM) stéttarfélag í prent- og miðlunargreinum og Félag hársnyrtisveina hafa ákveðið að boða til atkvæðagreiðslu um vinnustöðvun sem yrði með eftirfarandi hætti:
Tímabundið verkfall dagana 10. t.o.m 16. júní 2015 og
ótímabundið verkfall sem hefst þann 24. ágúst 2015.
Verði verkföllin samþykkt munu þau taka til þeirra félagsmanna sem falla undir almennan kjarasamning Samtaka atvinnulífsins og viðkomandi stéttarfélaga og sambanda.
Kosning um verkfallsheimild verður rafræn og mun hefjast þann 24. maí 2015 og ljúka þann 1. júní 2015, kl 10.00
Fulltrúar iðnaðarmanna hafa átt í viðræðum við SA um endurnýjun kjarasamninga. Á fundi viðræðunefndar félaganna með fulltrúum SA þann 5. maí s.l. var sýnt að viðræðurnar væru árangurslausar og það hefði ekki tilgang að halda þeim áfram.
Í þeim viðræðum sem staðið hafa yfir hafa iðnaðarmannafélögin lagt áherslu á að minnka vægi yfirvinnu í heildarlaunum með því að hækka dagvinnulaun svo þau dugi til framfærslu. Mikil þörf er fyrir nýliðun í greinunum en núverandi launakerfi hafa skapað starfsumhverfi sem höfðar síður til ungs fólks.