Fréttir

Frá aðalfundi 12.apríl 2012

1 maí. 2012

Aðalfundur félagsins var haldinn á Grandhótel við Sigtún fimmtudaginn 12. apríl kl. 17. Fundinn sóttu 40 félagsmenn og var hann því löglegur. Reikningar sjóða félagsins voru bornir undir atkvæði og voru þeir samþykktir.

Á fundinum var lögð fram tillaga frá stjórn og trúnaðarráði félagsins, þess efnis að aðalfundur samþykkti að veita stjórn og trúnaðarráði FBM heimild til að leita til fasteignasala, fá verðmat og hefja söluferli á eign félagsins á Hverfisgötu 21. Ef ásættanlegt sölutilboð berst verður það borið undir félagsfund til samþykktar. Lög félagsins hveða á um að allar meiriháttar eignabreytingar þurfi að bera undir félagsfund. Tillagan var samþykkt með 39 atkvæðum, einn var á móti.

Einnig var lögð fram tillaga þess efnis að aðalfundur myndi samþykkja að hús nr. 5 í Miðdal yrði sett i söluferli. Húsið verði boðið til sölu meðal félagsmanna FBM sem jafnframt býðst að gera lóðarleigusamning vegna lóðarinnar sem húsið stendur á. Áskilinn réttur til að taka hæsta tilboði eða hafna öllum. Tillagan var samþykkt samhljóma.

Á fundinum var einngi lögð fram tillaga um að gera Grétar Sigurðsson bókbindara að heiðursfélaga FBM. Tillagan var samþykkt samhljóða.

Grétar Sigurðsson fæddist 3. september 1929 í Digranesi, sem þá var í Seltjarnarneshreppi, en er nú í Kópavogi. Hann lærði bókband í bókbandsstofu Víkingsprents, hóf nám 3. desember 1945, brottfararpróf frá Iðnskólanum í Reykjavík 24. apríl 1949, sveinsbréfið er dagsett nákvæmlega ári síðar, 24. apríl 1950, og meistarabréfið 5. maí 1954. Grétar starfaði áfram eftir sveinsprófið í bókbandsstofu Víkingsprents (síðar Bókfelli) til 1950 og í Sveinabókbandinu til 1959, þegar hann var ráðinn verkstjóri í Eddu. Þar starfaði hann síðan til starfsloka. En hefur kennt öldruðum bókband hjá Félagsmálastofnun Reykjavíkur síðar.

Grétar hefur verið óþreytandi í störfum fyrir bókagerðarmenn frá að því hann lauk námi og er enn að. Hann var endurskoðandi Bókbindarafélags Íslands 1955 til 1959, varaformaður félagsins 1959 og formaður 1960 til 1971.
Grétar er einn þeirra sem sömdu um lífeyrisréttindi bókagerðarmanna 1959, áratug áður en almennu lífeyrissjóðirnir voru stofnaðir, og hann var síðan kosinn í fyrstu stjórn Lífeyrissjóð bókbindara 12. júní 1959, í stjórn Lífeyrissjóðs bókagerðarmanna frá stofnun 1981 til 1992 að við gengum í Sameinaða lífeyrissjóðinn og hann hefur setið í fulltrúaráði Sameinaða lífeyrissjóðsins lengst af síðan.

 

Til baka

Póstlisti