Fréttir

Frá aðalfundi GRAFÍU

20 jún. 2017

Aðalfundur Grafíu – stéttarfélags í prent- og miðlunargreinum var
haldinn 4. apríl 2017 kl. 16.30 á Stórhöfða 31, Reykjavík
Eftir að búið var að setja fundinn var látinna félagsmanna minnst.
Í tilefni af því að 120 ár uppá dag voru liðin frá því Hið íslenska prentarafélag, undanfara félags okkar var stofnað, flutti sagnfræðingurinn Stefán Pálson erindi sem hann kallaði ,,dugnaðarfontar og dáindismenn – hvernig íslenskir prentarar björguðu heiminum“.
Í kjölfarið tók við hefðbundin dagskrá aðalfundar. Ársreikningarnir voru bornir upp til samþykktar og samþykktir af öllum viðstöddum með handauppréttingu.

Þá var borin upp tillaga þar stjórnin óskaði eftir heimild aðalfundar til að vinna áfram með áform um húsnæðiskaup, sem nokkur stéttarfélög ásamt lífeyrissjóðnum Birtu hafa áhuga á að gangi eftir. Eftirtalin félög hafa gert með sér samkomulag um að stefna að því að hafa sína starfsemi í sama húsnæði, þ.e. Samiðn, Byggiðn, Félag iðn- og tæknigreina, Rafiðnaðarsamband Íslands, Matvís, Grafía og lífeyrissjóðurinn Birta. Á fundinum var kynntur húsnæðiskosturinn Dvergshöfði 4 sem félögin hafa hug á að gera tilboð í. Eftir nokkrar umræður, spurningar úr sal og svör var tillaga svohljóðandi borin undir atkvæði:

Tillaga til aðalfundar GRAFÍU þriðjudaginn 4. apríl 2017 um húsnæðiskaup.
Aðalfundur GRAFÍU haldinn á Stórhöfða 31, þriðjudaginn 4. apríl 2017 samþykkir að veita stjórn félagsins heimild til að kaupa húsnæði fyrir starfsemi félagsins á grunni ofangreinds samstarfs.
Trúnaðarráð GRAFÍU
Atkvæði greidd með handauppréttingu fóru svo: 3 á móti, nokkrir sátu hjá, en meirihluti veitti samþykki sitt.

Tvær tillögur um breytingar á lögum félagsins voru lagðar fyrir aðalfundinn; Tillaga trúnaðarráðs um breytingu á 10. gr. í reglugerð Sjúkrasjóðs og tillaga Arnar Geirssonar um breytingu á gr. 7.3.

Tillaga um að 10. grein Sjúkrasjóðs verði þannig:
1. gr. Eingreiddar dánarbætur.
Eingreiddar dánarbætur virkra félagsmanna
Eingreiddar dánarbætur við andlát virks og greiðandi sjóðfélaga eru 360.000 krónur. Dánarbætur renna til dánarbús hins látna.
Aðrar dánarbætur – félagsmenn hættir störfum vegna aldurs/örorku
Við andlát félagsmanns, sem ekki er á vinnumarkaði en var sjóðfélagi við starfslok er stjórn sjóðsins heimilt að greiða til dánarbús hins látna hluta dánarbóta. Skilyrði greiðslu skv. þessum lið er að hinn látni hafi verið sjóðfélagi samfellt síðustu 5 ár fyrir starfslok vegna aldurs/örorku, þ.e. var síðast félagsmaður GRAFÍU-stéttarfélags. Greiðsla til eftirlifandi maka eða barna innan 18 ára aldurs skal vera að hámarki kr. 180.000. Stjórn sjóðsins hefur heimild til þess að greiða hluta dánarbóta til annarra lögerfingja sem kosta útför his látna, að hámarki kr. 120.000.
Bótafjárhæðir miðast við vísitölu neysluverðs pr. 1.1. 2017 og taka sömu breytingum og hún.

Atkvæði greidd með handauppréttingu við þessari tillögu fóru þannig: Enginn var á móti, fáeinir
sátu hjá og meirihlutinn samþykkti tillöguna.

Tillagan um breytingu á 7.3 grein um stjórnarkjör er þessi:
7.3. Tillaga um þrjá menn í stjórn og tvo menn í varastjórn. Skulu vera einstaklings kosningar og
fari fyrstu þrír úr þeirri kosningu í stjórn og næstu tveir í varastjórn.

Þessi tillaga var felld af meirihluta félagsmanna.

Þvínæst fóru fram stjórnarskipti: Aðalstjórn: Georg Páll Skúlason formaður, Anna Haraldsdóttir
hjá Morgunblaðinu, Ásbjörn Sveinbjörnsson hjá Odda, Hrönn Jónsdóttir hjá Munck á Íslandi,
Oddgeir Þór Gunnarsson hjá Odda, Páll Reynir Pálsson hjá Litlaprenti og Þorkell S. Hilmarsson
hjá Odda.
Varastjórn: Anna Helgadóttir hjá Odda, Gréta Ösp Jóhannesdóttir, Guðmundur Gíslason hjá
Prentmeti, Óskar Ragnar Jakobsson hjá Umslagi.

Stefán Ólafson lætur af störfum í varastjórn, formaður rakti í stuttu máli hvernig félagið hefur notið krafta Stefáns í áranna rás, bæði í stjórn og varastjórn sem og hinum ýmsu nefndum og var Stefáni þakkað samstarfið með lófataki, sömuleiðis var Kalmanni le Sage de Fontenay þakkað fyrir sín störf í þágu félagsins. Hann hefur verið áheyrarfulltrúi í stjórn fyrir hönd FGT frá árinu 2000 og lætur nú af því starfi.

Kosnir voru tveir skoðunarmenn og tveir til vara: Hallgrímur P. Helgason og Tryggvi Þór
Agnarsson. Til vara: Stefán Sveinbjörnsson og Páll Heimir Pálsson

Ritstjóri Prentarans var kosinn Jakob Viðar Guðmundsson.

Í fulltrúaráð Birtu lífeyrissjóðs voru kosnir Georg Páll Skúlason og Bragi Guðmundsson. Til
vara: Sigurður Valgeirsson og Þorkell Svarfdal Hilmarsson

Í Laganefnd voru kosnir þeir Sæmundur Árnason, Bragi Guðmundsson, Georg Páll Skúlason.

Í Ritnefnd: Anna Haraldsdóttir og Hrönn Jónsdóttir.

Undir dagskrárliðnum önnur mál, kvaddi Kalmann le Sage de Fonenay sér hljóðs og rifjaði
upp hvernig það kom til að hann hefur setið í stjórn FBM/Grafíu sem fulltrúi Félags grafískra
teiknara frá árinu 2004 og þakkaði stjórnarsamstarfið sem lýkur hér með.

Haukur Már Haraldsson kynnti Prentsögusetrið sem stofanð var 2015, og hefur viðað að sér
tækjum og munum sem tilheyra sögu prentiðnarinnar á Íslandi. Prentsögusetrið er nú að leita að
húsnæði undir safnið.

Fundarstjóri var Stefán Ólafsson og ritari Anna Haraldsdóttir

Til baka

Póstlisti