Forsendur kjarasamninga halda
20 jan. 2012
Á fundi trúnaðarráðs Félags bókagerðarmanna 17. janúar 2012 var fjallað um endurskoðunarákvæði kjarasamninga FBM og SA. Niðurstaða þeirrar umræðu var að forsendur kjarasamninga haldi gildi sínu.
Í því felst að almenn launahækkun verður 3,5% frá 1. febrúar n.k. Á sama tíma hækka lægstu laun og kauptaxtar um kr. 11.000.
Trúnaðarráð var hins vegar mjög ósátt við framgang mála sem snúa að yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem hún gaf við undirritun kjarasamninga 5. maí 2011. Þar má nefna skatt á lífeyrissjóði sem bitnar fyrst og fremst á sjóðum almennra launamanna í ljósi þeirrar staðreyndar að lífeyrissjóðir opinberra starfsmanna hafa ríkisábyrgð.
Einnig eru mikil vonbrigði með að ekki sé staðið við fyrri yfirlýsingu um að atvinnuleysisbætur og bætur almannatrygginga hækki til samræmis við hækkun lægstu launa í kjarasamingum þ.e. kr. 11.000. Í stað þess hyggst ríkisstjórnin hækka bætur um 3,5%. Fleiri atriði er hægt að telja til sem ekki hafa gengið eftir og því liggur fyrir að vonbrigði með framgang ríkisstjórnarinnar eru mikil.
Trúnaðarráð Félags bókagerðarmanna