Fréttir

Forsendur kjarasamninga brostnar – endurskoðun kjarasamninga

8 jan. 2013

Senn líður að síðustu endurskoðun yfirstandandi kjarasamninga ASÍ og SA sem renna út 31. janúar 2014. Endurskoðuninni þarf að vera lokið fyrir 21. janúar 2013. Ljóst er að samningsforsendur hafa ekki staðist og forsendunefnd ASÍ og SA hefur afhent samninganefndum aðila málið til úrlausnar.
Fjórar forsendur voru lagðar til grundvallar þegar samningar voru undirritaðir í maí 2011. Í fyrsta lagi að kaupmáttarþróun væri jákvæð á tímabilinu desember 2011 til desember 2012, skv. launavísitölu Hagstofu Íslands. Í öðru lagi að verðlag héldist stöðugt á samningstímanum og verðbólga væri ekki hærri en 2,5% í desember 2012. Í þriðja lagi að gengi íslensku krónunnar væri 190 í desember 2012 miðað við þrönga viðskiptavog Seðlabanka Íslands og í fjórða lagi að stjórnvöld hafi staðið við gefin fyrirheit í efnahags-, atvinnu- og félagsmálum.
Eina forsendan sem hefur staðist er að kaupmáttarþróun hefur verið jákvæð þrátt fyrir að ekki hafi allir fengið aukinn kaupmátt. Tekist hefur að verja kaupmátt þeirra sem lökust hafa kjörin en afar mismunandi er hvernig aðrir hópar hafa komið út úr mælingum kaupmáttarþróunar. Verðbólga er nú 4,3% eða 1,8% hærri en stefnt var að og mjög mikilvægt er að ná henni niður. Gengi íslensku krónunnar stendur í 232 stigum og er því rúmlega 22% veikara en að var stefnt. Vandinn er sá að eftir því sem krónan veikist eykst verðbólgan.

Mikilvægt að treysta samninginn
Samninganefndir Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins funda á næstunni um hvaða lausnir eru mögulegar til að leysa þann vanda sem kominn er upp. Formannafundir ASÍ verða haldnir 7. janúar og 18. janúar 2013 sem leggja samninganefnd sambandsins línuna og fara með valdið um hvort samningum verður sagt upp. Þar gildir hlutfallslegt vald sambanda og félaga með beina aðild innan ASÍ. Það er því ekki á valdi hvers og eins félags að segja upp samningum. Fari svo að samningum verði sagt upp kemur 3,25% launahækkun og 11.000 kr. hækkun kauptaxta ekki til framkvæmda 1. febrúar 2013. Það er því mikilvægt að freista þess að ná jákvæðri niðurstöðu í samningaferlinu til að tryggja að launahækkunin skili sér.

Ágreiningur við ríkisstjórn
Mikill ágreiningur hefur verið milli verkalýðshreyfingarinnar og ríkisstjórnarinnar um hvernig framvinda yfirlýsingar rikisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamningana í maí 2011 hefur gengið eftir. Þótt eflaust megi takast á um einstaka þætti hennar er ljóst að mikilvægir þættir, s.s. jöfnun lífeyrisréttinda milli opinberra starfsmanna og starfsfólks á hinum almenna vinnumarkaði, hafa ekki náð fram að ganga og eru í uppnámi.

Atvinnuleysi félagsmanna
Dregið hefur úr atvinnuleysi jafnt og þétt frá því það náði hámarki á árinu 2009. Atvinnuleitendur eru nú í desember 32 talsins eða 3,8% og hafa ekki verið færri frá 2009 þegar atvinnuleitendur voru rúmlega 8% af virkum félagsmönnum. Félagsmenn hafa sótt út fyrir prentiðnaðinn í leit að störfum og hefur félagið aðstoðað þá við að sækja sér viðbótarmenntun til að auka möguleika á að sækja á ný mið en störfum í prentiðnaði hefur ekki fjölgað á undanförnum misserum.

4. janúar 2013 Georg Páll Skúlason

Til baka

Póstlisti