Formannafundur ASÍ vill ekki segja upp samningum
28 feb. 2018
Formannafundur ASÍ, sem haldinn var í dag, 28. febrúar 2018, samþykkti í atkvæðagreiðslu að segja ekki upp kjarasamningum.
Alls greiddu 49 atkvæði en þeir voru með 79.062 félagsmenn (heilsársstörf) á bak við sig.
Niðurstaða formanna:
Já, vil segja upp 21 (42,9%)
Nei, vil ekki segja upp 28 (57,1%)
Vægiskosning:
Já 52.890 (66,9%)
Nei 26.172 (33,1%)
Í atkvæðagreiðslunni þurfti bæði meirihluta fundarmanna sem fóru með atkvæði á fundinum og meirihluta þess atkvæðavægis sem að baki þeim standa. Þar sem ekki náðist meirihluti fundarmanna var tillaga um uppsögn samninga felld.
Kjarasamningar á almennum vinnumarkaði munu því gilda til ársloka.
Þeir sem vildu halda í samninginn töluðu m.a. um að aðeins væru 9 mánuðir eftir af samningnum og hann tryggði 3% almenna launahækkun 1. maí og rúmlega 7% hækkun lágmarkslauna. Nota ætti tímann til hausts til að móta kröfugerð og undirbúa næstu kjaraviðræður.
Það var þungt hljóð í þeim sem vildu segja upp og sterk krafa um að verkalýðshreyfingin setti fótinn niður í samfélagi misskiptingar. Stjórnvöld voru harðlega gagnrýnd fyrir að taka til sín ávinning af starfi verkalýðshreyfingarinnar sem hefur lagt mikla áherslu á hækkun lægstu launa, en stjórnvöld tekið að stórum hluta til baka með skerðingu bóta. Úrskurðir kjararáðs og hækkanir á launum æðstu stjórnenda banka og Landsvirkjunar urðu auk þess mörgum fundarmönnum tilefni til gagnrýni. Formannafundur ASÍ, sem haldinn var miðvikudaginn 28. febrúar, komst að þeirri niðurstöðu að gildandi samningum við Samtök atvinnulífsins verður ekki sagt upp.
GRAFÍA stéttarfélag greiddi atkvæði gegn uppsögn en Trúnaðarráð félagsins, sem skipar samninganefnd félagsins, átti fund ásamt trúnaðarmönnum félagsins í aðdraganda formannafundarins. Þar var einróma niðurstaða að segja ekki upp samningum.