Ég hef það bara ágætt, þakka þér fyrir. Er að vísu svolítið linur; maður verður það með aldrinum,“ segir Svanur Jóhannesson í Hveragerði á hinum enda línunnar en hann hélt upp á níræðisafmæli sitt síðasta haust. Ekki er Svanur þó linari en svo að í næstu viku kemur út glæný bók eftir hann, Prentsmiðjubókin, þar sem saga prentsmiðja á Íslandi er rakin frá því um 1530. Hefur Svanur unnið að verkinu undanfarin fimm ár og orðið margs vísari um þessa löngu og merkilegu sögu.Nýja bókin er framhald af bók Svans, Prentsmiðjueintök, sem kom út 2014 og aftur í endurskoðaðri útgáfu 2015. Þá var aðeins skrifað um þær prentsmiðjur sem hann átti eintök frá en nú er hins vegar lögð áhersla á að segja sögu allra prentfyrirtækja frá því prentun hófst á Íslandi. Niðurröðun efnisins er eftir aldursröð prentsmiðjanna á landinu öllu þótt vinnslan á bókinni hafi verið eftir byggðarlögum eða landshlutum.
Svanur á ekki langt að sækja bókaáhugann en faðir hans var skáldið ástsæla Jóhannes úr Kötlum. Sjálfur er hann bókbindari að mennt og vann lengi sem slíkur en síðar á skrifstofunni hjá Félagi bókagerðarmanna. Reglum samkvæmt þurfti Svanur að láta af störfum 67 ára, fyrir 24 árum. Honum þótti það tóm vitleysa á sínum tíma en þetta varð eigi að síður til þess að hann gat farið að huga að ýmsum hugðarefnum, svo sem prentsögunni.
Frá Jóni sænska að Prentmeti Odda
Heimildum ber saman um að Jón Hólabiskup Arason hafi fyrstur manna flutt prentsmiðju til Íslands, en ekki er ljóst hvaða ár það var. Einnig er sagt, að prentarinn hafi heitið Jón Matthíasson eða Mattheusson og verið kallaður hinn sænski. „Menn hafa deilt skarpt um ártalið gegnum tíðina, enda lítið um heimildir, en oftast er miðað við árið 1530 sem þýðir að 490 ár eru á þessu ári liðin frá þessum merka viðburði. Það er voðalega löng saga,“ segir Svanur. „Ég hallast að því að það sé rétt en auðvitað getur þó munað einhverjum árum til eða frá. Þarna hef ég mína frásögn en það síðasta sem ég minnist á er sameining Prentmets og Odda á síðasta ári.“Örfáar prentsmiðjur störfuðu á Íslandi fyrstu aldirnar en mest af íslenskum bókum var prentað í Danmörku fram á nítjándu öld. Svanur fjallar um þessar prentsmiðjur í bókinni en flestar voru þær í Kaupmannahöfn. „Það var mjög fróðlegt að skoða þetta en prentun íslenskra bóka var merkilega stór hluti af danska markaðnum á þessum tíma – enda Íslendingar alltaf að skrifa bækur. Að minnsta kosti ein prentsmiðja sem prentaði þessar bækur er ennþá til, J.H. Schultz, 360 ára gömul. Önnur, S.L. Møller, varð um 200 ára en þar störfuðu margir Íslendingar.“
Á nítjándu öld voru stofnaðar a.m.k. 26 prentsmiðjur á Íslandi, þar af 23 eftir 1850. Frá 1900 til 1950 voru stofnaðar um eitt hundrað prentsmiðjur hér á landi og algjör sprenging varð frá 1950 til 2000 þegar um 200 nýjar prentsmiðjur tóku til starfa. Það gera 300 prentsmiðjur á einni öld. Að sögn Svans tók langan tíma að finna margar af þessum prentsmiðjum og oft var erfitt að finna raunveruleg prentsmiðjueintök og stundum fundust þau alls ekki, en þá var brugðið á það ráð að fá rafræn eintök frá timarit.is eða öðrum aðilum.
Litríkur maður og margdæmdur
Svanur segir uppganginn í íslensku prentverki eftir miðja nítjándu öld tengjast nýjum prentfrelsislögum og baráttu Jóns Ólafssonar í þá veru. Þó svo að Íslendingar þyrftu áfram að fá leyfi frá konungi og dönskum yfirvöldum til að stofna og reka prentsmiðjur þá virðist það hafa verið mun auðveldara eftir að lög þessi tóku gildi.„Jón var lykilmaður í þeirri baráttu og kom víða við. Það er fræg frásögn. Hann var litríkur maður og margdæmdur, meðal annars fyrir að birta níð um Dani í blaði sem Friðrik Guðmundsson bókbindari var ábyrgðarmaður að. Jón hrökklaðist að minnsta kosti tvisvar úr landi; í annað skiptið fór hann vestur um haf og lenti þar með Grant Bandaríkjaforseta. Sagan segir að þeir hafi setið að sumbli í Hvíta húsinu eftir að Jón skilaði honum skýrslu um Alaskaförina. Þeir fóru síðan á knæpurnar og kom að því að Jón vildi hætta og fara heim. Grant vildi hins vegar halda áfram og fékk lánaðan hálfan silfurdal hjá Jóni þegar leiðir skildi.“
Jón var þrjóskur að upplagi og lét ekki segjast; sneri alltaf aftur heim enda hafði hann brennandi þörf fyrir að tjá sig á prenti. Í eitt skipti fékk hann bróður sinn, Pál Ólafsson skáld, til að sækja um prentsmiðjuleyfi fyrir sig til konungs. Leyfið var veitt og starfaði sú prentsmiðja á Eskifirði og gaf meðal annars um tíma út blaðið Skuld.
Jón var einnig um skeið í samstarfi við Benedikt Sveinsson á Elliðavatni en, að sögn Svans, var hann fyrsti maðurinn til að láta smíða fyrir sig prentsmiðju hér á landi; fékk til verksins prentsmið og járnsmið. „Því miður er ekki vitað hvað varð um hana,“ segir Svanur. „Jón gaf út smápésa, sem hann kallaði Smávegis, á Elliðavatni. Sá pési er mikið fágæti, enda var mest af upplaginu gert upptækt, en mér tókst að hafa uppi á einu eintaki.“
Á köflum þvælin saga
Alls er getið um 395 prentsmiðjur á Íslandi í bókinni en Svanur tók þann pól í hæðina að halda sig við nöfn prentsmiðjanna sem gefið hafa út bækur eða blöð en ekki tilteknar prentvélar sem gjarnan gengu kaupum og sölum. „Þetta er á köflum þvælin saga og miklu fleiri prentsmiðjur en mig hafði órað fyrir.“Hann segir suma staði atkvæðameiri en aðra; má þar nefna Vestmannaeyjar. „Prentsmiðjur í Vestmannaeyjum voru um tíma óvenjumargar miðað við stærð staðarins. Prentvélarnar voru að vísu ekki nema tvær eða þrjár en reglulega var skipt um nafn á prentsmiðjunum. Gera má því skóna að rekstur hafi á köflum verið erfiður og svo fléttast ógurleg pólitík inn í þetta líka. Meðal manna sem komu þarna við sögu voru Ísleifur Högnason og Gísli J. Johnsen.“
Af öðrum stöðum sem mikið hefur verið prentað á nefnir Svanur Seyðisfjörð, Ísafjörð og Akureyri. „Það er mjög gaman að skoða hversu samofin þessi prentsaga er menningu þessara staða. Mikill þvælingur var á sumum þessum prentsmiðjum. Skúli Thoroddsen fór til dæmis með sína prentsmiðju frá Ísafirði suður á Bessastaði. Prentsmiðjan sem var um skeið í Viðey fluttist yfir í Aðalstræti í Reykjavík, í Bergmannsstofu. Svona mætti lengi telja.“
Svanur er einnig með fjölritunarstofur inni í heildarfjölda prentsmiðja en dæmi eru um að ungskáld og fleiri hafi gegnum tíðina leitað til slíkra stofa til að spara sér útgjöld. „Það er sannarlega útgáfa og sumt af því meira að segja býsna merkilegt.“
Hefur fengið góða aðstoð
– Hvernig kom það til að þú byrjaðir á þessari vinnu?„Þetta var í raun rökrétt framhald af vinnunni við fyrri bók mína. Við Þorsteinn Jakobsson, prentari í Reykjavík, höfum verið að safna eintökum úr prentsmiðjum á síðustu árum; svokölluðum prentsmiðjueintökum, svo við notum orð sem Stefán Ögmundsson prentari bjó til. Í upphafi stóð til að gera þetta fyrir Félag bókagerðarmanna en af því varð ekki og það var ekki fyrr en mörgum árum seinna að við Þorsteinn helltum okkur út í þetta af fullum krafti. Hann hefur verið betri en enginn við þessa vinnu, eins Rúnar Sigurður Birgisson, fornbókasali í Kolaportinu og bankastjóri Bókabankans, sem lumaði á mörgum dýrgripnum í safni sínu, sérstaklega gömlum blöðum, og Ragnar Guðmundsson bókasafnari, sem nú er látinn, en hann lagði líka til mörg góð eintök. Kann ég þeim að vonum bestu þakkir fyrir þeirra framlag. Við komumst fljótt að því að fjölmargir prentstaðir stóðu út af en í fyrri bókinni er aðeins getið um 130. Margir þeirra voru einkum og sér í lagi stofnaðir til að gefa út blöð vítt og breitt um landið. Segja má að ég hafi farið nokkra hringi um landið til að safna þessu saman.“
Svanur er einnig mjög þakklátur Páli syni sínum sem braut bókina um. „Páll er mín hjálparhella og alltaf gott að geta leitað til hans. Við vinnum mjög vel saman, feðgarnir,“ segir Svanur en þess má geta að hann er sjálfur lipur á tölvur, sem er alls ekki sjálfgefið fyrir mann af hans kynslóð.
– Hvaða tímabil í þessari sögu finnst þér merkilegast?
„Því er erfitt að svara. Það er margt ansi merkilegt. En ætli ég myndi ekki segja að tímabilið í kringum aldamótin 1900 sé merkilegasti og skemmtilegasti tíminn. Þá fjölgaði prentsmiðjum mjög hratt og mikill uppgangur var í greininni.“
Margir litríkir og atorkusamir hugsjónamenn koma við sögu í bókinni. Svanur nefnir sem dæmi Þorvald Sigurðsson bókbindara og Valdimar Jóhannsson bókaútgefanda, föður Jóhanns Páls Valdimarssonar hjá Forlaginu og afa Egils Arnar, núverandi framkvæmdastjóra. „Valdimar bauðst á sínum tíma að kaupa þýðingu á Konu manns eftir sænska rithöfundinn Vilhelm Moberg og gaf hana út. Bókin sló í gegn og seldist upp á tveimur dögum, að mig minnir. Valdimar vildi að vonum ráðast strax í aðra prentun en þá voru allar prentsmiðjur uppteknar í miklum jólaönnum. Hann dó hins vegar ekki ráðalaus, heldur setti sig í samband við Þorvald sem var með bókband á Leifsgötunni. Hann hafði reist gróðurhús í bakgarðinum og var að koma sér upp prentsmiðju þar. Úr varð að önnur prentun á Konu manns fór fram þar. Þetta er að mér vitandi eina prentsmiðjan sem starfrækt hefur verið í gróðurhúsi á Íslandi. Og það í miðri Reykjavík.“
Lét rífa þakið af húsinu
Annar skemmtilegur var Hilmir Axelsson, sonur Axels Kristjánssonar í Rafha. „Hann rak prentsmiðjuna Hilmi og gaf á tímabili út Vikuna og seldi grimmt. Steindórsprent prentaði upphaflega fyrir hann en Hilmir vildi eignast prentvél sjálfur til að hafa örugga prentun og geta prentað tímaritið í tuttugu þúsund eintökum. Honum bauðst að kaupa prentvél af Herbertsprenti en vandamálið var að taka þurfti vélina í sundur til að koma henni út úr húsinu og setja hana saman aftur á nýjum stað. Hilmir, sem var áhlaupamaður, mátti ekkert vera að því að bíða eftir því og fékk því leyfi til að rífa þakið af húsinu og flytja prentvélina þannig í heilu lagi með krana sem hann leigði hjá Eimskip. Þetta kallar maður að hugsa í lausnum.“Athygli vekur að Svanur gefur Prentsmiðjubókina út sjálfur í 500 eintökum, þar af 50 árituðum. „Ég ætlaði að gefa bókina út hjá Hinu íslenska bókmenntafélagi. Ég var þar með menn mér fylgjandi en á endanum var annað tekið fram yfir og maður getur ekkert gert í því. Þess vegna ákvað ég að gera þetta bara sjálfur en samdi við Forlagið um að dreifa henni fyrir mig. Mér var vel tekið þar á bæ og skilst að bóksala gangi ágætlega, ekki síst yfir netið. Bókamarkaðurinn er að breytast mikið, eins prentiðnaðurinn. Þetta er allt orðið stafrænt. Það var helst að ég setti fyrir mig að ég væri orðinn of gamall til að standa í svona löguðu. En það þýðir víst ekki að velta því meira fyrir sér; þetta er búið og gert.“
Svanur kveðst hafa haft mikla ánægju af gerð þessarar bókar og sér ekki eftir einni einustu mínútu sem fór í verkið. „Það hefði örugglega ekki tekið ungan og frískan mann fimm ár að skrifa þessa bók, maður er lengur að hlutunum kominn á þennan aldur en það var afskaplega gaman að gera þetta,“ segir Svanur og velta má fyrir sér á móti hvort ungur og sprækur maður hefði verið þess umkominn að ná utan um allar þessar heimildir. „Það veit ég auðvitað ekki en hitt er ljóst að það hlýtur að vera fengur í því að þessi saga sé nú til á einum stað.“
Starfsþrekið er ágætt
Svanur skellir upp úr þegar spurt er hvað taki við hjá honum núna. „Aðalatriðið var að koma þessu út áður en maður er alveg búinn. Það tókst. Ég er ekki að hugsa um neitt sérstakt núna en ég á örugglega eftir að finna mér eitthvað að gera.“– Þá tengt prentsögunni?
„Það er ekki ólíklegt; ég væri til dæmis alveg til í að skoða ákveðin sérprent. Svo er ég alltaf í svolitlu sambandi við Prentsögusetur. Það er verst að ég er farinn að missa svolítið sjón á öðru auga. Mér finnst það óþægilegt og það ruglar mig dálítið í höfðinu. Ég má þó ennþá keyra bíl; maður má víst alveg vera eineygður undir stýri. Síðan finnur maður æ meira fyrir því að jafnaldrar og samferðamenn eru ansi mikið farnir að týna tölunni. Annars er ég ekkert að kvarta, starfsþrekið er ágætt og ég er alltaf eitthvað að grúska. En ég er hættur að bera út blöð; það er ágæt kona tekin við því hlutverki hérna í hverfinu og ég er ekki frá því að hún sé heldur snarpari en ég.“
Hann hlær.
Við ljúkum spjallinu á ástandinu sem við búum við í heiminum í dag. „Þetta eru furðulegir tímar. Ekki er hægt að segja annað. Ég reyni að láta þetta ekki fá mikið á mig en erfitt er samt að komast hjá því. Það er til dæmis allt lokað í kringum mig hérna í Hveragerði. Við hjónin erum alveg hérna heima, eins og flestir á okkar aldri, og börnin okkar hafa verið mjög dugleg að fara út í búð fyrir okkur og hjálpa okkur að öðru leyti. Það er helst að maður fari of lítið út að hreyfa sig, það þarf að laga. Maður hugsar sér til hreyfings þegar fer að vora meira.“
Viðtalið tók Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is sem birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 26. apríl 2020.
Birt með góðfúslegu leyfi höfundar.