Fréttir

Fagfélögin efla samstarfið

7 feb. 2023

 

 

Samstarf Fagfélaganna hófst formlega þegar Hús Fagfélaganna var opnað árið 2019 en þá fluttu Byggiðn – félag byggingamanna, FIT – Félag iðn- og tæknigreina og Samiðn – samband iðnfélaga í sameiginlegt húsnæði að Stórhöfða 31 þar sem Rafiðnaðarsamband Íslands og MATVÍS höfðu þegar verið til húsa. Í lok árs 2021 gekk VM – Félag vélstjóra og málmtæknimanna inn í samstarfið sem var þá aukið til muna og nær í dag til almennrar þjónustu og afgreiðslu við félagsfólk, bókhalds, lögfræðiþjónustu og kjaramála.

FIT – Félag iðn- og tæknigreina hefur nú ákveðið að stíga út úr samstarfinu og tók sú ákvörðun formlega gildi 1. febrúar. Fjögur félög sem hafa starfað undir hatti Fagfélaganna munu halda samstarfinu áfram og hafa fullan hug á að efla og styrkja starfið enn frekar. Óljóst er um afstöðu Samiðnar um áframhaldandi samstarf.  Markmið samstarfsins er alltaf að auka þjónustu við félagsfólk ásamt því að tryggja að iðnaðar- og tæknisamfélagið sé sterkt afl gagnvart atvinnurekendum og stjórnvöldum. Það gerum við best í sameiningu og rúmlega 14 þúsund félagsmenn þessara fjögurra félaga eru sterkari sameinaðir en sundraðir.

Við erum gríðarlega stolt af þeim árangri sem hefur náðst síðan samstarfið hófst og þeirri þjónustu sem við höfum veitt félagsmönnum. Starfsfólk Fagfélaganna, sem hefur staðið í framlínu þessarar samvinnu og leitt þróun að bættri þjónustu fyrir öll félögin, á hrós skilið fyrir frábær störf. Í mannauði Fagfélaganna eru gríðarleg verðmæti og tækifæri sem munu auðvelda þróun til framtíðar fyrir félögin sem eru í samstarfi undir merkjum Fagfélaganna.

Stjórnir þeirra félaga sem mynda nú samstarf Fagfélaganna hafa sterkan vilja til að þróa og styrkja samstarfið í náinni framtíð. Með samstarfinu höfum við tækifæri til hraðari og öflugri þjónustu við félagsfólk ásamt því að rödd Fagfélaganna er og verður sterkari sameinuð og tryggir að við getum haft raunveruleg áhrif til hagsbóta fyrir okkar fólk!

Til baka

Póstlisti