Réttindi Fæðingarorlofssjóðs skert
26 nóv. 2009
Miðstjórn ASÍ hefur fjallað um viðbótarsparnaðarkröfu sem gerð er á Fæðingarorlofssjóð vegna ársins 2010 upp á 1,2 milljarða kr. Það er skoðun miðstjórnar að með þessari sparnaðarkröfu sem kemur til viðbótar því sem áður hefur verið ákveðið sé með alvarlegum hætti vegið að því framsækna fæðingarorlofskerfi sem byggt hefur verið upp hér á landi frá árinu 2000. Fyrirkomulagi sem hefur sýnt sig að vera mikilvægur grundvöllur réttinda barna til að vera samvistum við báða foreldra sinna, aukins jafnréttis á vinnumarkaði og möguleika beggja foreldra til að samræma atvinnuþátttöku og fjölskyldulíf.
Sparnaðarkrafan nú þýðir í reynd tæplega 10% skerðing á réttindum úr sjóðnum og er þá ekki tekið tillit til hækkana sem hefðu átt að koma til framkvæmda um næstu áramót. Tillagan sem félags- og tryggingamálaráðherra hefur nú lagt fyrir ríkisstjórnina gengur út frá að hámark fæðingarorlofsgreiðslan verð 300.000 kr. og að fyrir þorra foreldra fari hlutfall fæðingarorlofsgreiðslna af viðmiðunartekjum úr 80% í 75%. Í þessu sambandi skal bent á að til viðbótar er þegar búið að skerða réttindi úr sjóðnum tvisvar sinnum síðan um síðustu áramót. 1. janúar sl. var hámarksgreiðsla úr sjóðnum lækkuð úr 480.000 kr. í 400.000 kr. Þá var hámarkið aftur lækkað 1. júlí sl. nú í 350.000 kr. Í þessu sambandi er vert að benda á að samkvæmt stöðugleikasáttmálanum sem gerður var í júní sl. var gert ráð fyrir að skerðing í velferðarkerfinu yrði ekki yfir 5%.
Jafnframt skal bent á að það eru gjarnan sömu einstaklingarnir og nú eiga að fá skerðingu á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði, sem orðið hafa fyrir alvarlegustu áföllunum vegna hækkunar á lánum og verðfalli á íbúðarhúsnæði, samhliða samdrætti á vinnumarkaði. Vegna lækkunar á viðmiðunartekjum munu auk þess fjölmargir lenda í tvöfaldri skerðingu.
Í ljósi framanritaðs leggur ASÍ til að tillagan um frekari skerðingu Fæðingarorlofsgreiðslna verði endurskoðuð og hún dregin til baka.