Fréttir

Dimmalimm – íslensku myndskreytiverðlaunin 2013

3 feb. 2014

Lani Yamamoto hlaut Dimmalimm – íslensku myndskreytiverðlaunin 2013 fyrir bókina Stína stórasæng, Crymogea gefur bókina út.

Hönnun: Ármann Agnarsson, prentun: Prentsmiðjan Oddi.

lani stina storasaeng2

lani-yamamoto

Dimmalimm verðlaunin í ár eru styrkt af Myndstefi og Félagi bókagerðarmanna. Dómnefndina skipuðu Kristín Dagmar Jóhannesdóttir, Gunnar Karlsson og Halldór Þorsteinsson. Kristín Dagmar talaði fyrir hönd dómnefndar og sagði m.a. í rökstuðningi sínum:

Sá metnaður sem Lani Yamamoto hefur lagt í útgáfu barnabókarinnar Stína stórasæng er aðdáunarverður. Myndskreytingin er hér órjúfanlegur hluti sögunnar og bráðskemmtileg framlenging textans. Heildarhönnun og uppsetning er afar vönduð þar sem hver opna er úthugsuð og er myndrænt sterk. Stína stórasæng fjallar um stelpu sem hræðist það að vera kalt og beitir allri sinni hugvitssemi til að forðast kuldann. Hún kemst brátt að því að það er ekki alltaf skynsemin og vitið sem eru best til fallin til að halda á sér hita. Sagan er dæmisaga um að vinátta geti opnað nýjar dyr og veitt okkur hlýju. Myndirnar gefa sögunni aukna vídd, til dæmis með skírskotun í vinnuteikningar eða „blueprint“ af tækjum og tólum, uppfinningar sem geta bæði fangað okkur og frelsað. Til viðbótar má nefna skemmtilegt samstarf Lani við hönnunarteymið Vík Prjónsdóttur sem hannaði lestrarvettlinga utan um bókina fyrir þá sem kannast við það að vera alltaf kalt. Einfaldleiki en um leið visst nostur í stíl Lani er eftirtektarverður en það sem styrkur hennar liggur hvað helst í – er hve sannfærandi karaktersköpun hún veitir sögupersónum sínum. Mætti helst nefna skemmtileg lítil sérkenni í líkamsstöðu eða líkamsbeitingu sem veitir þeim sérstæðan hversdagslega mannlegan karakter. Á sýningunni Þetta vilja börnin sjá! í Menningarmiðstöðinni Gerðubergi má sjám þær bækur sem kepptu til verðlaunanna að þessu sinni. Starfsfólk Gerðubergs og Borgarbókasafnsins mun bjóða 8 ára skólabörnum upp á skemmtilega dagskrá á sýningartímabilinu þar sem þau fá að skoða sýningarnar Þetta vilja börnin sjá og Óradrög, sýningu Bjarna Ólafs Magnússonar, auk þess að taka þátt í spennandi leikjum á bókasafninu. Einnig er boðin leiðsögn um sýningarnar fyrir aðra aldurshópa í samráði við starfsfólk Gerðubergs. Sýningin er farandsýning og hafa sýningar síðustu ára verið settar upp víða um landið.

Eftirtaldir listamenn hafa áður hlotið Dimmalimm verðlaunin:

2012 Birgitta Sif Jónsdóttir fyrir bókina Óliver

2011 Kristín Ragna Gunnarsdóttir fyrir Hávamál sem Þórarinn Eldjárn endurorti

2010 Karl Jóhann Jónsson fyrir bókina Sófus og svínið

2009 Ragnheiður Gestsdóttir fyrir bókina Ef væri ég söngvari

2008 Kristín Ragna Gunnarsdóttir fyrir bókina Örlög guðanna sem skrifuð er af

 Ingunni Ásdísardóttur

2007 Sigrún Eldjárn fyrir bókina Gælur, fælur og þvælur

2006 Björk Bjarkadóttir fyrir bókina Amma fer í sumarfrí

2005 Áslaug Jónsdóttir fyrir bókina Gott kvöld

2004 Áslaug Jónsdóttir fyrir bókina Nei, sagði litla skrímslið

2003 Brian Pilkington fyrir bókina Mánasteinar í vasanum

2002 Halla Sólveig Þorgeirsdóttir fyrir bókina Engill í Vesturbænum sem skrifuð er

 af Kristínu Steinsdóttur

Til baka

Póstlisti