Fréttir

Dimmalimm-íslensku myndskreytiverðlaunin 2010

8 feb. 2011

 

dimmalimm_frett_vef

Karl Jóhann Jónsson hlaut Dimmalimm – íslensku myndskreytiverðlaunin 2010 fyrir bók sína Sófus og svínið sem gefin er út af Námsgagnastofnun.

Í dómnefndinni voru Aðalsteinn Ingólfsson, fulltrúi Gerðubergs, Bryndís Loftsdóttir sem er fulltrúi Eymundsson og Kalman le Sage de Fontenay,  fulltrúi Myndstefs.

Aðalsteinn Ingólfsson sagði m.a. í rökstuðningi sínum:

Líkt og í fyrra vorum við þrjú nokkuð samstíga í kröfugerð okkar til myndlýsinga í barnabókum, það er, við lögðum á það áherslu að myndirnar  væru ekki einskær endurspeglun textans, heldur ykju þær við hann og gerðu hann innihaldsríkari, væru jafnvel lífvænlegar utan bóka.

Stundum gleymist að barnabækur eru ekki einskær afþreying og skemmtun fyrir smáfólkið: þær hafa einnig fræðslugildi. Sú bók sem hlýtur Dimmalimm-myndlýsingarverðlaunin í ár hefur eiginlega töluvert meira fræðslugildi en umfang hennar ber með sér. Mynda-og textahöfundur hennar, Karl Jóhann Jónsson, er myndlistarmaður og myndlistarkennari. Verðlaunabók hans,  Sófus og svínið, sem gefið er út af Námsgagnastofnun, er tilraun til að vekja áhuga  yngstu nemenda á myndlist og hjálpa þeim að njóta hennar.  Söguhetjan Sófus málar fyndin tilbrigði um andlitsmyndir eftir marga frægustu listamenn sögunnar, en þær eru æði litaðar af nærveru aðstoðarmannsins, svínsins Konráðs.

Í bókinni má síðan bera saman örmyndir af frummyndunum og útleggingar  Sófusar, og klykkt út með „Umræðupunktum“ fyrir börn, sem jafnvel sjóaðir listunnendur hefðu gagn af að kynna sér, til að mynda um tilgang og réttmæti þess að breyta myndum annarra eftir eigin höfði. Allt kemst þetta til skila, þótt brot á bókinni verði að teljast í naumara lagi miðað við ásetning höfundar.  Utan bókar og í fullri stærð eiga „paródíur“ Karls Jóhanns síðan erindi við langtum fleiri en smáfólkið; raunar vildi ég gjarnan sjá sérstaka sýningu á þeim öllum. Í leiðinni get ég upplýst að uppáhaldsmynd mín í bókinni er „svínslega“ sjálfsmyndin af Fridu Kahlo.

Þetta er í níunda sinn sem verðlaunin eru veitt en áður hafa eftirfarandi listamenn veitt þeim viðtöku:

2009   Ragnheiður Gestsdóttir fyrir bókina Ef væri ég söngvari   
2008   Kristín Ragna Gunnarsdóttir fyrir bókina Örlög guðanna sem skrifuð er      
af Ingunni Ásdísardóttur
2007   Sigrún Eldjárn fyrir bókina Gælur, fælur og þvælur
2006   Björk Bjarkadóttir fyrir bókina Amma fer í sumarfrí
2005   Áslaug Jónsdóttir fyrir bókina Gott kvöld
2004   Áslaug Jónsdóttir fyrir bókina Nei, sagði litla skrímslið 
2003   Brian Pilkington fyrir bókina Mánasteinar í vasanum
2002   Halla Sólveig Þorgeirsdóttir fyrir bókina Engill í Vesturbænum sem skrifuð er 
af Kristínu Steinsdóttur

Á sýningunni Þetta vilja börnin sjá! í Menningarmiðstöðinni Gerðubergi má sjá þær bækur sem kepptu til verðlaunanna að þessu sinni. Starfsfólk Gerðubergs og Borgarbókasafnsins munu bjóða 8 ára skólabörnum upp á skemmtilega dagskrá á sýningartímabilinu þar sem þau fá að skoða sýningarnar Þetta vilja börnin sjá! og Ormurinn ógnarlangi og taka þátt í spennandi leikjum á bókasafninu. Einnig er boðin leiðsögn um sýningarnar fyrir aðra aldurshópa í samráði við starfsfólk Gerðubergs.

Til baka

Póstlisti