Bókaútgefendur fluttu sjálfir vinnslu bóka úr landi
26 nóv. 2018
Í kvöldfréttum RÚV 25. nóvember sl. var frétt þess efnis að jólabækurnar væru almennt prentaðar erlendis í ár og ekki annað að skilja á framkvæmdastjóra Forlagsins en að það væri Prentsmiðjunni Odda að kenna og vísað til þeirrar ákvörðunar fyrirtækisins að selja úr landi bókbandsvél sem gerði kleift að fjöldaframleiða harðspjaldabækur.
Vissulega er miður að þessi staða sé uppi hér á landi, að ekki séu öflug tæki til að sinna þessum hluta bókaframleiðslunnar og harmaði GRAFÍA það í ályktun þegar Oddi tilkynnti söluna og um uppsagnir fjölda starfsmanna á sama tíma. En bókaútgefendur, ekki síst stærsta bókaforlagið á Íslandi, Forlagið, ættu að líta í eigin barm því að á undanförnum árum hafa þeir sjálfir fært stærstan hluta bókavinnslu til annarra landa, sem er ástæða þessarar ákvörðunar Odda. Skv. könnun Bókasambands Íslands á prentstað bóka í Bókatíðindum Félags íslenskra bókaútgefenda í fyrra voru 66,6% bóka prentaðar erlendis og árið 2016 voru það 55,2%, en þá voru öll tæki og tól fyrir hendi hér á landi til að framleiða allar þær bækur sem gefnar voru út á Íslandi. Það er enn unnt að prenta og vinna bækur, t.d. kiljur, hér á landi þrátt fyrir að þessi bókbandsvél hafi verið seld úr landi.
Það er málstað bókaútgefenda ekki til framdráttar að láta líta svo út að það sé Odda og íslenskum prentiðnaði að kenna að bókaútgefendur þurfi að velta fyrir sér hver endurprentun og upplag eigi að vera vegna þess að afhendingartími sé 3-4 vikur frá Norður Evrópu en afhendingartími var mjög stuttur ef bókin var unnin hér heima. Staða bókarinnar er nógu viðkvæm þó ekki bætist á villandi málflutningur Þeim mátti vera fullljóst að engar forsendur voru fyrir því að láta tæki standa í óvissu um hvort þau yrðu notuð eður ei
Stjórn GRAFÍU stéttarfélags í prent- og miðlunargreinum.