Fréttir

Átta ungmenni frá Íslandi keppa á EuroSkills í Búdapest

25 sep. 2018

Dagana 26. – 28. september 2018 fara átta keppendur frá Íslandi til Búdapest í Ungverjalandi til að keppa á EuroSkills – evrópukeppni iðn- og verkgreina. Íslensku keppendurnir eru í trésmíði, grafískri miðlun, málmsuðu, rafvirkjun, rafeindavirkjun, bakstri, framreiðslu og matreiðslu. Undirbúningur hefur staðið yfir síðan í vor og nú er komið að keppninni. Keppendurnir voru valdir af hverri grein til að keppa fyrir Íslands hönd og hafa verið undir handleiðslu þjálfara sem fer með þeim á mótið.

Verkiðn – Skills Iceland er aðili að EuroSkills og hefur verið þátttakandi á vettvangi samtakanna og systursamtakanna WorldSkills frá árinu 2007. Í ár er fjöldi þátttakenda sá mesti sem farið hefur á EuroSkills og ríkir mikil eftirvænting í hópnum.

 Dýrmæt reynsla að byggja á

„Á EuroSkills eru nemar í iðnnámi að koma fram fyrir Íslands hönd og keppa í sínum iðngreinum. Keppendum gefst þarna einstakt tækifæri til að bera sig saman við kollega sína um alla Evrópu og kynnast því að standa á stóra sviðinu. Markmiðið er ekki endilega að koma heim með verðlaunapening heldur mikið frekar að vera sér og sinni iðngrein til sóma. Koma heim með dýrmæta reynslu í farteskinu til að ná enn lengra í faginu,“ segir Georg Páll Skúlason, formaður Verkiðnar.

Fylgstu með íslensku keppendunum

Hægt verður að fylgjast með íslensku keppendunum á Facebook- og Instagramsíðum Verkiðnar:


f.v. Georg Páll Skúlason formaður Verkiðnar, Svanborg Hilmisdóttir liðsstjóri, Þórey, Lovísa
Sigurmundsdóttir bakari, Ásbjörn Eðvaldsson rafeindavirki, Jón Þór Einarsson rafvirki,
Sigurður Borgar Ólafsson framreiðslumaður, Kristinn Gísli Jónsson matreiðslumaður, Þröstur
Kárason trésmiður, Finnur Ingi Harrýsson málmiðnaðarmaður og Haraldur Örn Arnarson prentsmiður


Keppendur frá vinstri: Jón Þór Einarsson rafvirki, Finnur Ingi Harrýsson málmiðnaðarmaður,
Þórey, Lovísa Sigurmundsdóttir bakari, Sigurður Borgar Ólafsson framreiðslumaður, Kristinn
Gísli Jónsson matreiðslumaður, Þröstur Kárason trésmiður, Haraldur Örn Arnarson prentsmiður
og Ásbjörn Eðvaldsson rafeindavirki.

Til baka

Póstlisti