Fréttir

ASÍ vill einfaldari lausn á greiðsluvanda

25 sep. 2009

Þrátt fyrir góðan ásetning í upphafi hafa komið fram ýmsir gallar á greiðsluaðlögun fyrir fólk í alvarlegum fjárhagsvanda.  Þessi hópur er stór og fer stækkandi.  Könnun ASÍ sýnir að hér geti verið um 10 þúsund fjölskyldur að ræða.  Alþýðusambandið telur því afar brýnt að einfalda, skýra og flýta ferlinu og vill fela sýslumönnum umsjón með samræmdri framkvæmd þess. Þá telur ASÍ brýnt að lækka kostnað þeirra sem lenda með skuldir í löginnheimtu og að styrkja þurfi stöðu skuldara gagnvart kröfuhöfum og innheimtuaðilum.

Nákvæmar útlistanir á tillögum ASÍ er að finna í fylgiskjölum hér neðar í fréttinni en þessar eru þær helstu og varða það að greiðsluaðlögun:

–  taki jöfnum höndum á almennum skuldum og veðskuldum hvort heldur um er að ræða íbúðalán eða bifreiðalán

–  að nauðungarsölur stöðvist þegar beiðni um heimild til greiðsluaðlögunar er lögð fram

–  geti skilmálabreytt bæði fasteigna- og bifreiðaveðskuldum meðal annars þ.a. gengistrygging sé felld niður, gjalddögum fjölgað og lánstími lengdur

–  geti skorið niður fasteignaveðskuldir þegar við staðfestingu greiðsluaðlögunar, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum

–  að kröfuhafi sem ekki sætti sig við niðurskurð veðskulda umfram 100% veðþol eignar geti leyst eignina til sín gegn yfirtöku   veðskuldbindinga eða með öðrum orðum að skuldari skili lyklunum að eigninni. Skuldari og fjölskylda hans geti engu að síður haldið afnotum eignarinnar í allt að 12 mánuði gegn greiðslu hæfilegs endurgjalds í formi húsaleigu

–  tryggi að ef eign sú sem veðskuldir eru skornar af sé seld með hagnaði að raunvirði innan 5 ára frá afskrift skulda, skuli hagnaðinum skipt að jöfnu milli skuldara og kröfuhafa og einnig að greiðsluaðlögun megi taka upp á greiðsluaðlögunartíma ef skuldari efnast verulega á þvítímabili

–  geri ráð fyrir að eignir umfram þarfir megi selja enda sé þær seljanlegar

–  sé notendavænt og einfalt í framkvæmd þó lagatextinn sé þungur

–  að hið opinbera fjármagni og reki „skilanefndir“ heimilanna með því að

–  tryggja umsækjanda endurgjaldslausa aðstoð við gerð umsóknar, rafrænt og hjá opinberri stofnun

–  tryggja endurgjaldslausa umsjón með greiðsluaðlögun af hendi opinbers aðila

Minnisblað ASÍ sem kynnt var á samráðsfundi ríkisstjórnar og aðila vinnumarkaðarins 23.9 2009.

Tillögur ASÍ um lagabreytingar.

Til baka

Póstlisti