Verjum grunnstoðir velferðarkerfisins og kjör lágtekjuhópa
22 jún. 2010
Undirbúningur að gerð fjárlaga fyrir árið 2011 er í fullum gangi. Gatið sem þarf að fylla er stórt og því óhjákvæmilegt að draga verður úr útgjöldum og hagræða í ríkisrekstrinum. Miðstjórn ASÍ telur mikilvægt við þessar aðstæður að haft sé náið samráð við verkalýðshreyfinguna um forgangsröðun í rekstri ríkisins, með það að markmiði að verja grunnstoðir velferðarkerfisins og lágtekjuhópa.
Úr fjármálaráðaneytinu hafa borist þau skilaboð að til standi að frysta elli- og örorkulífeyri þriðja árið í röð. Þeirri leið hafnar miðstjórn Alþýðusamband Íslands alfarið. Elli- og örorkulífeyrisþegar eru margir hverjir meðal þeirra sem höllustum fæti standa í þjóðfélaginu og lífeyrir frá almannatryggingum er veigamikill hluti lífeyrisréttinda launafólks á almennum vinnumarkaði. Það verður aldrei samþykkt að ráðist verði að þeim hópi með þessum hætti, á sama tíma og opinberir starfsmenn búa við ríkistryggð lífeyrisréttindi.
Í forsendum fjárlaga er einnig unnið út frá þeirri hugmynd að frysta laun ríkisstarfsmanna á næsta ári. Innan vébanda ASÍ eru 12 þúsund opinberir starfsmenn, margir í láglaunastörfum. Miðstjórn ASÍ hafnar því að samningsrétturinn sé tekinn af okkar fólki með þessum hætti. Ríkisstjórnin verður að leita raunhæfari leiða til að ná endum saman en níðast á þeim er síst skyldi. Nóg er nú samt.