Ályktun formannafundar ASÍ um kjaramál
30 okt. 2013
Ályktun formannafundar ASÍ um kjaramál
Kjarasamningar á almennum vinnumarkaði eru lausir 1. desember n.k. Öll heildarsamtök samningsaðila á almennum og opinberum vinnumarkaði hafa undanfarin misseri metið ávinninginn af því ef efnahagsleg umgjörð kjarasamninga hér á landi væri svipuð og á hinum Norðurlöndunum, þar sem traust efnahagsstjórn tryggir stöðugt gengi og lága verðbólgu. Ljóst er að við þær aðstæður er vel gerlegt að auka kaupmátt launa í öruggum skrefum án þess að raska samkeppnisstöðu eða auka atvinnuleysi. Fundur formanna aðildarfélaga ASÍ telur að inn í slíkt umhverfi ættum við að stefna.
Mikil óvissa setur mark sitt á komandi kjarasamninga. Ný ríkisstjórn hefur ekki boðið aðilum vinnumarkaðarins upp á nokkuð samstarf varðandi forsendur kjarasamninga né kynnt hvernig hún sér fyrir sér stjórn efnahagsmála á komandi misserum. Þannig er það ekki ljóst hvernig ríkisstjórnin hyggst ná tökum á óstöðugu gengi krónunnar og þrálátri verðbólgu, hvort og þá hvernig hún sér fyrir sér afnám gjaldeyrishafta án þess að hagsmunir launafólks og heimila verði fyrir borð bornir né hvernig hún ætlar að haga stjórn peningamála til framtíðar. Ekki liggur fyrir hvernig aðgerðir í þágu skuldsettra heimila verða útfærðar og enn síður hvaða áhrif þær aðgerðir muni hafa á þróun efnahags- og gengismála.
Fundur formanna aðildarfélaga ASÍ telur að við þessar aðstæður sé útilokað að gera samninga til lengri tíma. Fundurinn telur skynsamlegt að samið verði til 6 til 12 mánaða og að sá tími verði notaður til þess að gefa stjórnvöldum kost á að eyða óvissu, skapa breiða sátt um stefnuna í helstu hagsmunamálum launafólks og samstöðu um nauðsynlegar aðgerðir í efnahagsmálum. Þannig mætti nota stuttan samningstíma til að leggja grunn að kjarasamningi til lengri tíma á næsta ári.
Reykjavík 30.október 2013