20 félagsmenn GRAFÍU í Odda missa vinnuna
15 feb. 2018
Um síðustu mánaðamót bárust slæm tíðindi um fjöldauppsögn í Odda. Starfsstöðvum í plastdeild á Fosshálsi og kassaframleiðslu á Köllunarklettsvegi verður lokað á næstu mánuðum. Öllum 86 starfsmönnum þar var sagt upp störfum og þeirra á meðal eru 20 félagsmenn GRAFÍU, fagmenn og aðstoðarfólk, 11 á Fosshálsi, 2 á Köllunarklettsvegi og 7 á Höfðabakka.
Hugur okkar allra er hjá þessum félögum okkar í Odda, sem standa nú í þeim erfiðu sporum að missa vinnuna og fjölskyldum þeirra. GRAFÍA mun að sjálfsögðu aðstoða þau með öllum ráðum og styðja við að sækja réttindi sín og undirbúa sig fyrir ný störf með styrkjum tengdum menntun og á annan þann hátt er nýta má til að efla og treysta stöðu þeirra á vinnumarkaði.
Prent- og miðlunarsvið IÐUNNAR fræðsluseturs mun sömuleiðis veita félögum okkar í atvinnuleit aukna þjónustu.
Georg Páll Skúlason
formaður GRAFÍU – stéttarfélags í prent- og miðlunargreinum