Fréttir

Ölfusborgir – unaðsreitur launafólks

9 nóv. 2016

 

Scan-2-GT-minni.jpg

Barnapössun í Ölfusborgum 1966 – f.v. Hulda Hafsteinsdóttir (6ára), Vigfús Már Sigurðarson (7 ára), Kristín Guðný Sigurðardóttir, (8 ára), Árni Hjálmarsson, (7ára), Alfreð Hafsteinsson (3 ára), Linda Ósk Sigurðardóttir í vagni (5 mánaða) Ljósmynd: Sigurður Þorsteinsson

Baráttan fyrir rétti launafólks til orlofs hófst þegar á fjórða
áratugnum og þá þegar fengust launaðir frídagar bundnir í
kjarasamninga nokkurra stétta. Almennur orlofsréttur var lögbundinn
árið 1942 í kjölfar samninga á vinnumarkaði. Næstu árin smáfjölgaði
frídögunum og voru þeir orðnir átján hjá flestum hópum um miðjan
sjötta áratuginn.

Til að almenningur gæti notið frídaganna var talið mikilvægt að gefa
fólki kost á dvöl í orlofsheimilum og árið 1958 veitti ríkisstjórnin
vilyrði fyrir landspildu í grennd við Hveragerði í því skyni. Drjúgan
tíma tók þó að taka endanlega ákvörðun um staðaval og fá landið afhent
og gerðist það ekki fyrr en á árinu 1962. Var þá þegar hafist handa
við undirbúning. Búið var í fyrstu húsunum sumarið 1964 og árið eftir
lauk framkvæmdum við fyrsta áfanga Ölfusborga, eins og svæðið var
nefnt. Útlit orlofshúsanna þótti óvenjulegt og bar skýr
höfundareinkenni arkitektsins Sigvalda Thordarsonar.

Í byrjun áttunda áratugarins urðu Ölfusborgir kjarnamiðja í starfi
Félagsmálaskóla alþýðu sem stóð fyrir ýmis konar námskeiðum til að
efla fólk til þátttöku í verkalýðsmálum. Voru Ölfusborgir í raun
miðstöð fræðslustarfsemi Alþýðusambandsins í um tveggja áratuga skeið.

Þótt orlofshúsum aðildarfélaga Alþýðusambandsins hafi fjölgað margfalt
á liðnum áratugum, gegnir byggðin í Ölfusborgum sérstöku hlutverki í
hugum félagsmanna í hreyfingunni. Til að halda þeirri sögu á lofti er
boðað til athafnar í Ölfusborgum laugardaginn  12. nóvember 2016, kl.
13:30  við þjónustumiðstöð þar sem stjórn Ölfusborga tekur á móti gestum og
Stefán Pálsson sagnfræðingur fer yfir sögu Ölfusborga.

Gengið verður um svæðið og afhjúpað glænýtt söguskilti um upphaf og
aðdraganda byggðarinnar í Ölfusborgum. Hönnuður skiltisins er Guðrún
Tryggvadóttir listakona.

Til baka

Póstlisti