Fréttir

Kjaraþing FBM 2010 niðurstöður

8 nóv. 2010

Kjaraþing FBM var haldið miðvikudaginn 27. október á milli kl 16:00 og 19:00 í sal félagsins Hverfisgötu 21.  Þingið var liður í undirbúningi félagsins fyrir komandi kjaraviðræður. Boðsbréf var sent á 45 manna úrtak úr félagaskrá en var einnig opið öllum félagsmönnum.
Þátttakendur 17 félagsmenn, mynduðu þrjá hópa með hópstjórunum Hrafnhildi Ólafsdóttur, Oddgeiri Þór Gunnarssyni og Þorkatli Svarfdal Hilmarssyni. Dalla Ólafsdóttir starfsmaður ASÍ hafði yfirumsjón með þinginu.

Í hópavinnunni voru lagðar fram þrjár spurningar, í þremur umferðum. Hver umferð fór þannig fram að þátttakendur byrjuðu á að skrifa tillögur sínar á miða og síðan var rætt um þær innan hópsins. Næst var tillögunum forgangsraðað með atkvæðagreiðslu. Efstu fimm atriðum úr hverri umferð, frá hverjum hóp, var síðan raðað á töflur og í lokin greiddu allir þátttakendur atkvæði um allar tillögur sem fram komu. 

Spurningarnar þrjár  voru:

1. umferð:    Hvaða kjaramál eru brýnust hjá bókagerðarmönnum?
2. umferð:    Hvaða réttindamál eru brýnust hjá bókagerðarmönnum?
3. umferð:    Hvaða áherslur á að fara fram með í sameiginlegum kröfum verkalýðshreyfingarinnar?

Hér fyrir neðan má sjá þau atriði sem að fengu flest atkvæði í hverri umferð

1. Umferð: Hvaða kjaramál eru brýnust hjá bókagerðarmönnum?

•    Afnema á verðtryggingu með öllu annars að verðtryggja laun svo kaupmáttur haldist – Setja á rauð strik
•    Færa kauptaxta nær greiddu kaupi samkvæmt kjarakönnun félagsins
•    Kauptaxtar hækki um 10-15%
•    Að allir fái almenna krónutöluhækkun
•    Vaktaálag verði sett i tvö þrep
•    Aukavinna verði 1% af mánaðarlaunum
•    Launaviðtöl verði skylda einu sinni á ári
•    Stytta vinnuvikuna
•    Hækka yfirvinnutaxtana

Hóparnir voru sammála um að afnema ætti verðtryggingu með öllu eða að verðtryggja laun – setja rauð strik, þannig að framfærsla og laun haldist í hendur og kaupmáttur verði tryggður. Færa á kauptaxta nær greiddum launum eins og þau birtast í kjarakönnun FBM og SI en einnig á að hækka laun almennt. Frí í stað yfirvinnu á að hafa margföldunarstuðulinn 1,8. Stytta á vinnuvikuna og skylda atvinnurekendur til að veita starfsmönnum launaviðtöl einu sinni á ári.

2. Umferð: Hvaða réttindamál eru brýnust hjá bókagerðarmönnum?

•    Styttri vinnuvika fyrir sömu laun
•    Fleiri veikindadaga til að sinna börnum, öldruðum og sjúkum ættingjum
•    Samningstíminn verði stuttur
•    Jarðarfarafrí verði veitt 2-3 á ári

Hóparnir voru sammála um að stytta ætti vinnuvikuna helst þannig að sömu laun fengjust fyrir styttri vinnuviku. Sækja ætti fleiri veikindadaga til að sinna börnum, öldruðum eða sjúkum ættingjum, sérstaklega þó vegna barna. Réttindi til náms á vinnutíma verði aukin. Samningstími næstu kjarasamninga verði stuttur. Einnig var umræða um að félagsmenn fengju frí til að sækja jarðarfarir 2-3 á ári.

3. Umferð: Hvaða áherslur á að fara fram með í sameiginlegum kröfum verkalýðshreyfingarinnar?

•    Samflot og samstaða aðildarfélaga ASÍ lykilatriði
•    Hækkun persónuafsláttar
•    Verðtrygging verði afnumin eða sett á allt þar með talin laun
•    Styðja við aðild að ESB
•    Lækka skatta á matvöru
•    Jafna lífeyrisréttindi
•    Nýjan gjaldmiðill
•    Hækka atvinnuleysisbætur og lengja bótatímabil
•    Hærri skattleysismörk

Hóparnir voru sammála um að samflot og samstaða aðildarfélaga ASÍ væri lykilatriði til að sækja fram gegn stjórnvöldum. Mikilvægt væri að hækka persónuafslátt.  Lækka ætti skatta á matvöru. Verðtryggingu ætti að leggja niður eða setja hana á laun. Styðja á aðild að ESB. Breyta þarf og jafna lífeyrisréttindi launafólks á opinberum og almennum markaði og jafna uppsagnarétt þeirra. Hækka þarf atvinnleysisbætur og lengja bótatímabil. Umræður urðu líka um jafnrétti og jöfnun launa milli kynjanna.

Niðurstöður frá þinginu verða lagðar til grundvallar við mótun kröfugerðar FBM í komandi kjarasamningum. Vinnsla endanlegrar kröfugerðar er í höndum trúnaðarráðs félagsins og lokakröfugerð þarf að leggja fram fyrir félagsfund til samþykktar.

IMG_4231

IMG_4235

IMG_4234

Til baka

Póstlisti